Hús vikunnar: Sandvík í Glerárþorpi (Lyngholt 30)
Í síðustu viku vorum við stödd við Gránufélagsgötu á Oddeyri en nú færum við okkur norður yfir á, að Sandvík. Sandvík stendur um skammt upp af ósum Glerár og er númer 30 við götuna Lyngholt. Húsið byggði Kristján Jósefsson trésmiður og síldarmatsmaður árið 1929.
Sandvík er reisulegt einlyft steinhús á kjallara (aðeins niðurgrafinn öðru megin þar eð húsið stendur í brekku) og með miðjukvisti. Krosspóstar eru í gluggum timburklæðning á veggjum og með bárujárn á þaki.
Þegar steinhúsið Sandvík var byggt var Glerárþorp þyrping smábýla og tilheyrði Þorpið Glæsibæjarhreppi. Árið 1955 var Þorpið lagt undir Akureyri og hófst þá fljótlega uppbygging þéttbýlis, þ.á.m. við göturnar Lyngholt og Steinholt. Býlin fengu flest númer við hinar nýju götur, og varð Sandvík Steinholt 12 . Árið 1976 var götuheitunum breytt og Steinholt lagt niður. Þau hús, sem staðið höfðu við Steinholt fengu þannig ný númer við Lyngholt. Sandvík eða Steinholt 12, varð Lyngholt 30.
Áðurnefndur Kristján Jósefsson, sem byggði húsið lést 1951, en sonur hans, Jósep og tengdadóttir Guðrún Jóhannesdóttir bjuggu þar áfram um áratugaskeið. Jósep Kristjánsson, eða Jósep í Sandvík var mikilvirkur myndlistarmaður og var annálaður fyrir landslagsmálverk. Eflaust státa mörg heimili af einhverju verka Jóseps í Sandvík uppi á veggjum.
Sandvík er reisulegt hús og í góðri hirðu. Það var gert upp af mikilli vandvirkni og natni um 1995, m.a. klætt upp á nýtt og er síðan allt hið glæstasta. Þá stendur húsið á skemmtilegum stað og blasir við hverjum þeim sem leið eiga um Krossanesbrautina til norðurs. Myndin er tekin þann 22. maí 2011.