Hús vikunnar: Hvoll í Glerárþorpi

Í síðustu viku vorum við stödd í Glerárþorpi. Við höldum okkur þar og bregðum okkur eilítið ofar í Holtahverfið að Hvoli, sem stendur við Stafholt, lítið eitt vestan við Krossanesbraut. Húsið mun eitt elsta íbúðarhúsið í Glerárþorpi, byggt snemma á 20. öld.

Hvoll er einlyft timburhús með háu risi og á lágum grunni. Á austurstafni er viðbygging með aflíðandi einhalla þaki og inngönguskúr að framanverðu. Húsið er allt bárujárnsklætt, nema hvað inngönguskúr er timburklæddur.

Heimildum ber raunar ekki saman um hvenær húsið er byggt, í bókinni Akureyri; höfuborg hins bjarta norðurs er húsið sagt byggt 1902 en í grein Lárusar Zophoníassonar um byggðasögu Glerárþorps, sem birtist í tímaritinu Súlum (10. árg., 1980) er húsið sagt byggt 1905. En það ár mun Jakob nokkur Sigurgeirsson hafa fengið leyfi til að reisa þarna þurrabúð. Í Manntali 1910 eru fjórir einstaklingar skráðir til heimilis á Hvoli í Lögmannshlíðarsókn, fyrrgreindur Jakob, kona hans Pálína Einarsdóttir, Njáll sonur þeirra og leigjandi að nafni Steinmóður Þórsteinsson. Bjuggu Jakob (d. 1926) og Pálína (d.1948) á Hvoli til dánardægurs og Njáll sonur þeirra um áratugaskeið eftir þeirra dag. Árið 1955 var Glerárþorp, sem áður lá undir Glæsibæjarhreppi, lagt undir Akureyrarkaupstað og fljótlega eftir það tók Holtahverfið að byggjast. Við Hvol var lögð gatan Stafholt og er húsið númer 10 við þá götu.

Hvoll er í afbragðs góðri hirðu og til mikillar prýði, og sama er að segja af umhverfi þess. Hús á borð við Hvol, gömul býli í nýrri hverfum, setja ævinlega skemmtilegan svip á umhverfið og hef ég áður lýst þeirri skoðun, að slík hús ættu að njóta varðveislugildis eða friðunar. Myndin er tekin þann 13. nóvember 2016.

Lesendum er velkomið að senda höfundi ábendingar eða annan fróðleik á póstfangið hallmundsson@gmail.com

Nýjast