20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Hús vikunnar: Eyrarlandsvegur 8 (Æsustaðir)
Mörg eldri hús bæjarins eiga frá fornu fari sérstök heiti. Sum þeirra eru nefnd eftir erlendum heimsborgum s.s. París, Berlín og Hamborg en einnig má víða finna hús sem fyrr á árum hlutu nöfn bæja. Oftar en ekki var um að ræða æskuslóðir þeirra sem byggðu eða áttu húsin. Það var einmitt tilfellið með Eyrarlandsveg 8, sem löngum var (og er enn) kallað Æsustaðir. Húsið byggði Jón Guðmundsson trésmíðameistari árið 1906 en mjög fljótlega eða fyrir 1910 eignaðist Pálmi Guðmundsson húsið og nefndi það Æsustaði, en hann var einmitt frá Æsustöðum í Saurbæjarhreppi.
Eyrarlandsvegur 8 er tvílyft timburhús með lágu risi og á tiltölulega háum steinsteyptum kjallara. Veggir eru klæddir steinblikki en bárujárn á þaki. Húsið er raunar tvær álmur og grunnflöturinn vinkillaga, önnur snýr meðfram götunni í N-S en hin er talsvert mjórri og snýr í A-V. Þar er um að ræða viðbyggingu frá miðri 20. öld, en þá áttu húsið þeir Kristinn Guðmundsson og Bernharð Laxdal. Húsið er klætt steinblikki og bárujárni á þaki og þverpóstar eru í gluggum. Á inngangi á suðurenda og horni er bogadreginn dyraumbúnaður, ennfremur bogadregnir og skrautlegir gluggarammar á efri hæð.
Eyrarlandsvegur 8 er traustlegt hús og í góðri hirðu og á það einnig við um umhverfi þess, en húsið stendur á gróinni og stórri lóð. Húsið er nokkuð skemmtilega staðsett á milli tveggja helstu kennileita brekkubrúnarinnar við Grófargil, Akureyrarkirkju og fyrrum Barnaskóla Íslands sem nú nefnist Rósenborg. Nú munu vera tvær íbúðir í húsinu, hvor á sinni hæð. Myndin er tekin þann 24. febrúar 2013.