Hugmynd um að Iðnaðarsafn verði hluti af sögu- og minjasafni

Þorsteinn E. Arnórsson safnstjóri Iðnaðarsafnsins á Akureyri. Sýningin Terra fyrir herra var  opnuð …
Þorsteinn E. Arnórsson safnstjóri Iðnaðarsafnsins á Akureyri. Sýningin Terra fyrir herra var opnuð á safninu í sumar, en hún er til heiðurs Jóni E. Arnþórssyni sem hóf söfnun iðnminja á Akureyri árið 1993. Mynd af Jóni sést á bak við Þorstein. Mynd MÞÞ

„Auðvitað er það svolítið skítt að enginn sjái ástæðu til að tala við safnstjórann, en það stendur kannski til bóta,“ segir Þorsteinn E. Arnórsson safnstjóri Iðnaðarsafnsins. Sótt var um í október síðastliðnum um að gerður yrði styrktarsamningur milli Akureyrarbæjar og Iðnaðarsafnsins  til 5 ára.

Stjórn Akureyrarstofu fjallaði um málið og kom fram að í þeirri fjárhagsáætlun sem fyrir liggur nú sé ekki gert ráð fyrir framlögum til reksturs Iðnaðarsafnsins. Akureyrarstofa geti því ekki orðið við þessu erindi. Í drögum að safnastefnu Akureyrarbæjar sem bæjarráð hefur samþykkt kemur fram að kanna á fýsileika þess að Iðnaðarsafnið verði hluti af sameinuðu sögu- og minjasafni og nái sá kostur ekki að verða að veruleika er til vara bent á þann kost að Iðnaðarsafnið sameinist Minjasafninu á Akureyri. Markmið með þeim ráðahag sé að varðveita einstaka- iðnaðar og atvinnusögu Akureyrar sem Iðnaðarsafnið hafi haldi utan um og miðlað. „Mikilvægt er að Akureyrarbær styðji við varðveislu og sýnileik þessarar sögu til framtíðar,“ segir í bókun stjórnar Akureyrarstofu. Fundað verður um þessar hugmyndir í dag, fimmtudag.

Launalaus safnstjóri í 10 mánuði

Safnstjóra Iðnaðarsafnsins var sagt upp störfum vegna fjárhagserfiðleika safnsins fyrr á þessu ári og hljóp Þorsteinn þá í skarðið. Hann hefur gegnt stöðu safnstjóra launalaust frá því í febrúar á þessu ári eða í 10 mánuði. Þorsteinn var í fyrri tíð formaður Iðju félags verskmiðjufólks og rann því blóðið til skyldunnar. Stofnandi safnsins, Jón Arnþórsson sem lést fyrir 10 árum síðan, árið 2011 hefði orðið níræður nú fyrir skömmu og segir Þorsteinn að hefði ekki getið hugsað sér að safnið lognaðist út af á því níræðisárstíð Jóns. „Ég gat ekki hugsað þá hugsun til enda að skellt yrði í lás á því ári þegar við minnist forsprakkans sem hóf þetta ævintýri, þannig að ég tók að mér að stýra safninu,“ segir Þorsteinn.

Gerir hann ráð fyrir að ljúka störfum um áramót, enda hafi ekki fengist neitt styrkur til að reka safnið áfram, en hugmyndir kynntar um að spyrða saman Iðnaðar- og Minjasafn. Telur Þorsteinn að þó söfnin tvö yrðu sameinuð blasi við að þau muni áfram berjast í bökkum. Hann segir að vissulega greiði Akureyrarbær fyrir húsnæði safnsins, hita og rafmagn, en annað fé sem til þar hefur safnið sjálft kríað út með styrkjum hér og þar. „Nú geri ég ráð fyrir að minn tími sé kominn, ég hef ekkert að gera hér lengur sýnist mér,“ segir Þorsteinn.

Nýjast