Hraðamyndavél sett upp við Hörgárbraut

Þessar ungu stúlkur voru með skýr skilaboð á samstöðufundinum sl. föstudag þar sem íbúar í grennd vi…
Þessar ungu stúlkur voru með skýr skilaboð á samstöðufundinum sl. föstudag þar sem íbúar í grennd við Hörgárbraut vilja tafarlausar úrbætur.

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra ásamt Akureyrarbæ og Vegagerðinni hafa komist að samkomulagi um uppsetningu hraðamyndavéla sem til stendur að setja upp við gangbrautarljós á Hörgárbraut á Akureyri. Þar hafa orðið nokkur slys á undanförnum árum þar sem keyrt er á gangandi vegfarendur, síðast febrúar á þessu ári þegar ekið var á 7 ára stúlku.

Íbúar á svæðinu hafa helst kallað eftir undirgöngum og var efnt til mótmæla vegna aðgerðarleysis bæjarins sl. föstudag. Samkvæmt upplýsingum blaðsins er óvíst hvað slík göng myndu kosta og fara þarf í grunnrannsóknir á svæðinu áður en sú ákvörðun yrði tekin.

 Uppsetningu á myndavélabúnaði sem er hraða- og rauðljósamyndavél verður við gangbrautarljós á Hörgárbraut skammt norðan við Tryggvabraut og við Stórholt. Á Facebooksíðu lögreglunnar á Akureyri segir að aðgerðin sé liður í bættu umferðaröryggi á umræddum vegkafla, ekki síst fyrir börn sem leggja leið sína yfir Hörgárbraut á leið sinni til og frá skóla.

„Markmiðið með aðgerðinni er að tryggja að hámarkshraði sé virtur og að auka virðingu fyrir rauðu ljósi almennt. Fyrirhugað samstarf Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, Akureyrarbæjar og Vegagerðarinnar byggir á fordæmi samstarfs Lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar fyrir hraðamyndavélar sem eru reknar í Reykjavík. Um er að ræða nýja tegund af myndavélum sem hafa ekki verið teknar í notkun hérlendis áður en hún er útbúin radartækni til hraðamælinga og verður vélin beintengd umferðarljósunum sem mun nema stöðu ljósanna hverju sinni,“ segir í færslu lögreglunnar.

Reiknað er með því að hafist verði handa við uppsetningu á umræddum búnaði eftir u.þ.b. 2 vikur.

Nýjast