20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Hjólin eru farin að snúast
Birna Pétursdóttir er leikkona, söngkona, handritshöfundur, leikstjóri og ýmislegt fleira. Hún var um skeið dagskrárgerðarkona á N4 en þar kynntist hún tilvonandi eiginmanni sínum, Árna Theódórssyni, sem einnig er kvikmyndagerðarmaður. Fyrir um ári síðan hættu þau bæði störfum hjá sjónvarpsstöðinni N4 og stofnuðu framleiðslufyrirtækið -Fluga hugmyndahús-. Í september ætla þau að ganga í það heilaga en athöfnin og veislan verður að Karlsstöðum í Berufirði. Vikudagur tók þessa atorkusömu ungu konu tali.
Birna segir að það sé búið að vera brjálað að gera frá því að þau Árni stofnuðu Flugu hugmyndahús. Meðal verkefna sem þau eru að vinna að núna er þriggja þátta sería um fyrstu vesturfarana. Hugmyndin vaknaði þegar Birna tók námskeið í safnafræði í tengslum við mastersnám sitt í þjóðfræði. Hluti af námskeiðinu var heimsókn til Vestmannaeyja í Safnheima. Þar hafi hún séð litla sýningu um vesturferðir íslenskra mormóna árið 1854.
„Þá kviknaði hugmynd um að gera heimildamynd um þessar fyrstu vesturferðir. Við gerðum smá handrit, ég og Árni og sendum á RÚV og þá fór boltinn að rúlla. Nú erum við að gera þriggja þátta seríu um fyrstu Vesturfarana. Það voru 400 hunduð mormónar sem fluttust til Utah í Bandaríkjunum. Það er almennt talað um að vesturferðirnar hefjist um 1870 en þessar vesturferðir íslenskra mormóna til Utah byrjuðu 1854. Þarna tölum við um fyrstu Vesturfarana og í rauninni voru þessar ferðir trúarlegs eðlis. Af þessum 400 hundruð komu 200 manns frá Vestmannaeyjum sem er mjög merkilegt því íbúar eyjanna voru ekki nema um 500 á þessum tíma,“ segir Birna og bætir við: „Við erum búin að vera við tökur í þrjár vikur í Utah í Bandaríkjunum og erum svo núna í tökum í Vestmannaeyjum.“
Viðtalið í heild sinni má nálgast í prentútgáfu Vikudags, en þess má geta, sem ekki kemur fram í viðtalinu að Birna mun birtast á sjónvarpsskjáum landsmanna í vetur en hún hefur verið ráðin dagskrárgerðarmaður í Landanum á RÚV.