Héraðsskjalasafnið á Akureyri aðstoðar gesti með allt milli himins og jarðar eða svo gott sem
Í upphafi nýs árs er venjan að taka stöðuna, líta yfir farinn veg og taka saman tölur nýliðins árs. Á opinberu skjalasafni eins og safninu okkar hér á Akureyri er ekki nema lítill hluti af starfinu sem hægt er bera á borð í formi tölfræði. Við höfum t.d. aldrei lagt í það að taka tímann á því hve langan tíma tekur að afgreiða fyrirspurn um lesgreiningu; finna eigendasögu heiðarbýlis; aðstoða gestinn sem langar að vita meira um ömmu sína; leiðbeina ritaranum í skólanum um vinnubrögð í skjalavörslu; lesa yfir skjalavistunaráætlanir og málalykla o.s.frv. Það stendur vonandi til bóta hjá okkur.
Ýmislegt annað er hægt að telja og segja frá opinberlega. Þannig getum við sagt frá því að gestir okkar á árinu 2022 voru 489, sem er nokkuð í takt við gestafjöldann árið 2021.
Útlánin voru umtalsvert færri en árið á undan eða 3934. Við bættust tæpir 45 hillumetrar af skjölum og voru rúmlega 35 hillumetrar opinber skjöl. Afhendingar voru 62 og voru um 70% þeirra frá einstaklingum, félögum og einkafyrirtækjum. Það er því eins og undanfarin ár að flestar afhendingar eru einkaskjöl en ef litið er til umfangs þá eru opinberu skjölin klárlega með vinninginn.
Árið 2022 bættust 4995 myndir við miðlunarvefinn okkar og í árslok var því hægt að skoða rúmlega 65 þúsund myndir af safnefni okkar á veraldarvefnum.
Meiri og nákvæmari tölfræði verður birt í ársskýrslunni okkar, sem verður vonandi tilbúin fyrir vorið.
Frá þessu er sagt á heimasíðu safnsins á Facebook.www.facebook.com/skjalak