Heimsleikar eldri borgara í hjólreiðum
Hjá Öldrunarheimilum Akureyrar er mikið hjólað þessa dagana en Hlíð og Lögmannshlíð taka þátt í Heimsleikum eldri borgara í hjólreiðum, Pedal on, núna í september. Þar er notast við norska hugbúnaðinn Motiview þar sem fólk hjólar fyrir framan sjónvarpsskjá og nær að skoða sig um í heiminum í leiðinni.
Hægt er velja um margar leiðir en yfir 100 myndbönd víðsvegar úr heiminum eru í boði, m.a. héðan frá Akureyri, er fram kemur á heimasíðu Akureyrar. Þessi hugbúnaður hefur nú verið í tæp tvö ár á öldrunarheimilunum og mælst mjög vel fyrir en Vikudagur fjallaði um verkefnið á sínum tíma.
Um 50 manns taka þátt fyrir hönd Öldrunarheimilanna. Motiview hefur verið vinsælt í Noregi og verið er að innleiða þetta í Danmörku. Hlíð er hins vegar fyrsta hjúkrunarheimilið hér á landi sem prufar þetta ásamt tveimur heimilum í Reykjavík.