Heimsfaraldurinn tók mikinn toll en nýir möguleikar opnuðust

Á liðnu ári var 460 milljón króna rekstrarhalli leiðréttur og til viðbótar fékk sjúkrahúsið 270 mill…
Á liðnu ári var 460 milljón króna rekstrarhalli leiðréttur og til viðbótar fékk sjúkrahúsið 270 milljónir króna í núverandi rekstrargrunn. Áfram þarf þó að auka fjárframlög til að tryggja betur aðgengi og öruggari heilbrigðisþjónustu í samfélaginu. Mynd af vef SAk

Um leið og afstaðinn heimsfaraldur hefur tekið mikinn toll af starfsfólki Sjúkrahússins á Akureyri er mikinn lærdóm að draga af tímabilinu og nýir möguleikar í þjónustunni hafa opnast. Þetta kom fram í ávarpi Hildigunnar Svavarsdóttur forstjóra Sjúkrahússins á Akureyri á ársfundi fyrir starfsárið 2022 sem fram fór fram í gær. Greint er frá fundinum á vefsíðu SAk.

Á liðnu ári var 460 milljón króna rekstrarhalli leiðréttur og til viðbótar fékk sjúkrahúsið 270 milljónir króna í núverandi rekstrargrunn. Áfram þarf þó að auka fjárframlög til að tryggja betur aðgengi og öruggari heilbrigðisþjónustu í samfélaginu.

Komum sjúklinga á dagdeildir fjölgaði um 23% milli ára en á sama tíma fækkaði komum á göngudeild vegna samdráttar í ljósameðferð. Skurðaðgerðum fækkaði um 17% milli ára vegna skertrar þjónustu skurðstofu fyrstu mánuði ársins 2022 vegna manneklu og takmarkana vegna heimsfaraldurs. Áfram var lögð áhersla á að stytta biðlista í gerviliðaaðgerðum í landinu en þó var fækkun í þeim á SAk vegna manneklu og skerðingar á skurðstofu.

 Enn er stöðug fjölgun í sjúkraflugi sem nam á 10%. Þess má geta að í 45% tilvika er læknir með í för og huga þarf að því að koma upp sér vaktalínu læknis í sjúkraflugi. Legudagar voru á svipuðu reiki og árið áður en sjúklingum fjölgaði um 11% á milli ára.

„Við horfum björtum augum til framtíðar og viljum svo sannarlega nýta sóknartækifærin. En til að allt gangi upp þurfum við að treysta á enn betri skilning stjórnvalda á lögbundnu hlutverki Sjúkrahússins á Akureyri með tilliti til verkefna og fjármagns,“ segir Hildigunnur.

Nýjast