Heimild veitt fyrir gámasvæði við Hólabraut og á lóð Hagkaupa

Á síðasta fundi skipulagsnefndar var tekið fyrir erindi frá Helga Má Pálssyni f.h. framkvæmdadeildar þar sem hann óskar eftir leyfi til að setja niður gáma til sorpflokkunar á eftirtöldum stöðum á Akureyri.  

Á svæði Akureyrarbæjar: 1) Innbær - Hafnarstræti 14. 2) Hólabraut, norðan Geislagötu 9. Á verslunarlóðum: 1) Hagkaup, Furuvöllum 17. Samþykki lóðarhafa um staðsetninguna liggur fyrir. Athugasemdir bárust frá þremur aðilum vegna staðsetningar gáma við leiksvæði í Hafnarstræti 14.
1) Sigurbjörg Pálsdóttir, Hafnarstræti 13 mótmælir staðsetningu sorpgáma á leiksvæðið og bendir á að búið sé að hanna leiksvæði á reitinn sem skerðist við staðsetningu sorpgáma á svæðið. Hún bendir á að nálægð við íbúðabyggðina sé óæskileg og samræmist engan veginn áformum um uppbyggingu á leiksvæðinu.
2) Haraldur Þór Egilsson f.h. Minjasafnsins, skorar á skipulagsnefnd að endurskoða staðsetningu gámastöðvarinnar í Innbænum m.a. vegna nálægðar við elsta hús bæjarins Laxdalshús. Húsið hafi mikið aðdráttarafl fyrir gesti og gangandi, sjónrænt gildi þess rýrni og geti skaðað þá starfsemi sem nú þegar er þar. Hætt sé við að umgengni um sorpgámana verði miður góð eins og sýnt hefur sig við Kaupang.
3) Rekstraraðilar í Laxdalshúsi, leggjast alfarið gegn tillögu um staðsetningu gámasvæðis við Hafnarstræti. Skora þeir á skipulagsnefnd að efna til fundar með íbúum og rekstraraðilum til að ræða þessi mál þannig að ásættanleg niðurstaða fáist í sátt við íbúa svæðisins.
Skipulagsnefnd heimilaði staðsetningu gámasvæðis við Hólabraut og á lóð Hagkaupa til sorpflokkunar til eins árs. Skipulagsnefnd leggur hins vegar til að staðsetning gámastöðvar í Innbænum verði staðsett tímabundið við Skautahöll nyrst á bílastæði við strætisvagnaskýli.

Sigurður Guðmundsson fulltrúi A-lista og Auður Jónasdóttir fulltrúi VG óskuðu bókað að þau telji að í stað gámasvæðis við Hólabraut norðan Geislagötu 9 eigi að staðsetja gámasvæðið austast á bílastæðum sunnan íþróttavallar.

Nýjast