13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Heimamenn opna nýja byggingavöruverslun á Húsavík
Heimamenn ehf. munu opna nýja byggingavöruverslun á Húsavík í febrúar. Þar verða seldar allar helstu byggingavörur sem í boði eru, ásamt málningu, hreinlætistækjum og öðru sem tengist viðhaldi og nýbyggingum. Verslunin mun heita Heimamenn.
Mikil óánægja greip um sig í bænum í kjölfar frétta um að Húsasmiðjan hyggðist loka verslun sinni á Húsavík en skellt var í lás nú um áramót. Nokkur verktakafyrirtæki á Húsavík hafa nú tekið höndum saman, stofnað félagið Heimamenn ehf. og hyggjast opna verslunina eins og áður segir í febrúar.
Tóku málin í sínar hendur
„Við stefnum á það, kannski ekki alveg um mánaðamótin en svona fljótlega upp úr því. Við förum að keyra í hillur, byrgjarnir eru klárir,“ segir Brynjar T. Baldursson í samtali við Vikublaðið en hann hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri félagsins. Fyrirtækin sem standa að Heimamönnum eru; Val ehf., Steinsteypir ehf., Vermir sf., Trésmiðjan Rein ehf. og Bæjarprýði ehf.
Verslunin verður staðsett að Vallholtsvegi 8 á Húsavík þar sem Byggingavörudeild KÞ, KÞ Smiðjan og Húsasmiðjan hafa verið með rekstur áður.
Spurður hversu lengi verkefnið sé búið að vera í bígerð, segir Brynjar að ferlið sé búið að vera í gangi í nokkrar vikur í núverandi mynd. „Svona eftir að við fórum að safna saman liði í þetta. Þetta var helst drifið áfram af því að iðnaðarmenn á Húsavík geta ekki hugsað sér að vera án byggingavöruverslunar í bænum,“ útskýrir hann.
Nú þegar er búið tryggja aðgang að mörgum þekktum vörumerkjum og fleiri eru væntanleg. „Uppleggið er kannski svipað og við þekkjum frá Húsasmiðjunni en það verður aðaláhersla á þessar fagvörur. Við verðum ekki til að byrja með a.m.k í þessum gjafa- og heimilisvörum sem Húsasmiðjan var með. Mögulega munum við taka inn rafmagnstæki, það er enn í vinnslu og erum í viðræðum við fleiri byrgja og sömu sögu er að segja varðandi timbrið,“ segir Brynjar og bætir við að hann sé verulega spenntur orðinn fyrir opnuninni og hlakki til að taka á móti viðskiptavinum í nýrri húsvískri verslun.