Hefur auðgað menningu og mannlíf í samfélaginu í 15 ár

Aðalheiður Steingrímsdóttir framkvæmdastjóra AkureyrarAkademíunnar og Margrét Guðmundsdóttir sagnfræ…
Aðalheiður Steingrímsdóttir framkvæmdastjóra AkureyrarAkademíunnar og Margrét Guðmundsdóttir sagnfræðingur sem lengi hefur haft aðstöðu innan AkAk en hún hefur tekið saman skýrslu um starfsemina þau 15 ára sem liðin eru frá stofun hennar.

„Hér hefur farið fram afskaplega fjölbreytt og skapandi starf sem auðgað hefur menningu og mannlíf í okkar samfélagi,“ segir Margrét Guðmundsdóttir sagnfræðingur og einn félaga í AkureyrarAkademíunni. Hún hefur tekið saman  skýrslu sem nýlega kom út um allt það fræða- og menningarstarf sem fram hefur farið á vettvangi Akademíunnar undanfarin 15 ár. Skýrslan ber heitið: Sköpun akademóna. Verkefni og viðburðir 2006 – 2021. Skýrslan er gefin út til að halda á lofti því sem gert hefur verið og vekja athygli á því merkilega starfi sem AkAk stendur fyrir.

Háskólanemar áberandi

Frá því AkureyrarAkademían var stofnuð á árinu 2006 hafa um 100 einstaklingar haft samastað til sinnar sköpunar innan veggja hennar að sögn Margrétar. Þeir hafi unnið að margvíslegum verkefnum á nær 50 fræðasviðum. „Þetta er fjölbreytt safn verkefna sem unnið hefur verið að, lokaverkefni í háskólum, rannsóknir af ýmsu tagi, skýrslur, tímaritsgreinar,  og margt fleira,“ segir hún og bætir við að háskólanemar hafi alltaf verið stór hluti þeirra sem nýta sér aðstöðu hjá AkAk. Þeir stundi nám og störf bæði við innlenda og erlenda háskóla, en í samantektinni kemur fram að þeir hafi verið við alls 5 innlenda og 11 erlenda háskóla um tíðina. „Þessi aðstaða sem akademían býður upp á gerir fólki kleift að stunda nám út um allan heim en búa áfram á Akureyri.“

Margrét segir  einnig að þess séu dæmi að fólk hafi flutt til Akureyrar, tekið störfin með sér þangað og komið sér upp starfsaðstöðu í AkureyrarAkademíunni. Sem dæmi þar um er fólk sem stundar kennslu við innlenda sem erlenda háskóla og tekur þátt í rannsóknarstarfi á fjölbreyttum fagsviðum. Auk fræði- og vísindamanna hafa listamenn sóst eftir aðstöðu til að vinna við sitt fag og einnig frumkvöðlar. Eitt af markmiðum akademíunnar í upphafi var að fræðimenn sem oft voru einir við sín störf   myndu slá sér saman um sameiginlegt húsnæði.

Keyptu húsnæði í Sunnuhlíð

AkureyrarAkademían var á sínum fyrstu árum til húsa í hluta af húsnæði gamla Húsmæðraskólans við Þórunnarstræti 99 á Akureyri en þegar fram liðu stundir og rýma þurfti það til að koma annarri starfsemi fyrir lenti akademían á hrakhólum, fór á milli húsa og setti endurtekin húsnæðisleit mark sitt á starfsemina. Þeim slítandi þætti lauk fyrir tveimur árum þegar AkureyrarAkademían keypti eigið húsnæði, um 180 fermetra á neðri hæð í verslunarmiðstöðinni Sunnuhlíð. Þar er rými fyrir 12 manns og er aðsókn ágæt en enn eru laus örfá pláss.

150 viðburðir af ýmsu tagi

AkureyrarAkademían hefur staðið fyrir fjölda viðburða á liðnum árum, alls um 150 Margrét segir að viðburðahaldið sé af ýmsu tagi, fyrirlestrar, námskeið og ráðstefnur séu áberandi en miðlun út til til almennings sé einnig í formi sýninga, leiklestra og sögugangna , bókakynninga og upplestra  sem og tónlistarflutnings o.fl. „Fjölbreytnin ræður ríkjum, það má segja að hún sé undraverð, það eru margar leiðir til að miðlunar og þær höfum við notað óspart,“ segir hún. „Þetta er það sem ég er hvað stoltust af í starfi AkureyrarAkademíunnar, starfsemin er svo margvísleg og leiðirnar til að miðla henni eru fjölbreyttar ,“ segir Margrét. „Við höfum svo sannarlega auðgað menningarlífið fyrir norðan. Það sem einnig er svo mikilvægt er að með því að fólk úr ólíkum greinum er undir sama þaki verður til heilmikil deigla. Þekking og reynsla spila saman, hugmyndir verða til og þróast áfram. Það hefur verið ómetanlega að upplifa þetta frjóa samtal sem ríkir innan akademíunnar. Andrúmsloftið og stemmningin hefur alltaf verið einkar góð,“ segir Margrét.

MÞÞ

Nýjast