13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Hefur áhyggjur af gönguleiðum niður að hafnarsvæði
Víðir Svansson starfar hjá GPG fiskverkun sem er staðsett á hafnarsvæðinu á Húsavík og ferðast oftar en ekki á tveimur jafnfljótum á leið sinni í og úr vinnu. Hann setti sig í samband við blaðamann og viðraði áhyggjur sínar varðandi gönguleiðir niður á hafnarsvæði, sérstaklega fyrir íbúa suðurbæjar sem sækja vinnu á hafnarsvæðið.
„Ég hef mikið spáð í leið niður fyrir bakkann og þá sérstaklega við brúnna við Lionshúsið. Þar var stigi áður fyrr sem var fjarlægður þegar jarðvinnuframkvæmdir hófust í Búðarárgilinu austan við brú,“ segir Víðir og bætir við að í dag sé þarna snarbrattur sneiðingur sem fólk er að ganga niður með tilheyrandi slysahættu. „Hann er nógu illfær á sumrin en stórhættulegur í slæmri vetrarfærð. Eftir að göngustígurinn á Stangarbakka var tekinn í notkun hefur umferð niður þennan sneiðing stóraukist og ég bíð bara eftir að þarna verði slys á fólki,“ segir Víðir áhyggjufullur.
Þá segir Víðir að leiðin niður Búðarárgilið sé stórhættuleg hvort sem farið er eftir veginum eða sneiðingana niður frá brúnni. „Fólk fer ýmist niður ofan við brú, neðan við brú eða jafnvel norðan við brú við frystiklefann hjá Norðlenska. Sjálfur fer ég veginn ef mikill snjór er þarna en þar er reyndar oft þungfært og/eða stórhættulegt að fara,“ segir hann og bætir við að það hafi ekkert endilega verið betra að fara norðar og ganga niður stigann frá Húsavíkurkirkju því þær verði oft þungfærar að vetri. Nú er líka búið að loka þeim stiga vegna slysahættu enda kominn á viðhald.
Benóný Valur Jakobsson, formaður skipulags og framkvæmdaráðs Norðurþings segir að búið sé að óska eftir tilboðum í nýjan stiga niður á Hafnarstétt frá Húsavíkurkirkju. Málið sé í ferli.
Varðandi gönguleiðina við Búðarárgil segir Benóný að gert sé ráð fyrir því að nýr stigi komi, nokkurn vegin þar sem sneiðingurinn er sem Víðir vísar til. Ekki hafi fundist fé í framkvæmdina við gerð síðustu fjárhagsáætlunar en það yrði skoðað hvort framkvæmdin rúmist innan fjárhagáætlunar næsta árs.
Hér að neðan má sjá myndir sem lýsa ágætlega ástandinu sem Víðir lýsir en hann tók myndirnar sjálfur.