13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
„Hefði vilja hafa meiri áhrif með virkri þátttöku í meirihlutasamstarfi“
Gunnar Gíslason bæjarfulltrúi D-lista á Akureyri gaf það út á dögunum að hann hyggðist ekki gefa kost á sér næstu sveitastjórnakosningum. Þegar hann gaf kost á sér sem oddviti Sjálfstæðisflokks árið 2014 hafði hann á orði að hann myndi sitja í minnst átta ár en mest 12 ár ef hann fengi til þess umboð.
„Í lok þessa kjörtímabils verð ég 64 ára og hef þá setið í bæjarstjórn í 8 ár. Ég met það svo eftir þessi átta ár að nú sé komið nóg og tími til kominn að hleypa yngra fólki að. Ég tek þessa ákvörðun nú ári áður en kjörtímabilinu lýkur svo góður tími gefist til þess að velja nýjan oddvita fyrir næstu kosningar,“ segir Gunnar í viðtali við Vikublaðið.
Í október 2019 tók Gunnar að sér starf forstöðumanns Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og segist hann hafa mikla löngun til þess að helga sig því starfi það sem eftir lifir af starfsferlinum. „Það hefur fylgt því nokkuð álag að vera bæði starfandi sem bæjarfulltrúi og forstöðumaður í fullu starfi og mjög tímafrekt að sinna hvoru tveggja þannig að vel sé.“
Aðspurður hvað hafi staðið upp úr á þessum tveimur kjörtímabilum tekur Gunnar fram það góða fólk sem hann hefur kynnst. „Það er fólkið sem starfað hefur náið með mér í flokknum, íbúar sem hafa viljað spjalla, koma skoðunum sínum á framfæri og viljað fá aðstoð við hin ýmsu mál sem snúa að bænum. Ég hef átt sæti í verkefnastjórnum brothættra byggða í Hrísey og Grímsey, sem hefur verið lærdómsríkur tími og í gegnum það starf hef ég fengið að kynnast íbúum eyjanna beggja og umhverfi þeirra sem er allt annað en hér í bænum sjálfum. Þá vil ég nefna fjölmargar heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir sem hafa opnað nýja sýn á atvinnulíf bæjarins sem er jú lífæð okkar og grundvöllur búsetu okkar allra í þessum fallega bæ sem Akureyrarbær er.“
Þá nefnir Gunnar samskiptin við ríkisvaldið og baráttuna við að jafna aðstöðu landsbyggðanna við það sem gerist á höfuðborgarsvæðinu. „Þar er ekki líku saman að jafna og eigum við langt í land hvað það varðar. Það hefur þó tekist að mjaka ýmsum málum fram s.s. varðandi raforkuflutning, aðstöðu á flugvellinum, byggingar heilsugæslustöðva og undirbúning við stækkun SAk, sem eru allt mál sem skipta okkur miklu. Það þarf hins vegar að gera miklu betur hvað varðar Háskólann á Akureyri og menningarsamninginn við ríkið svo ég nefni eitthvað.“
Gunnar segist að sumu leyti ganga sáttur frá borði en ekki að öllu leyti. „Ég lagði af stað í þennan pólitíska leiðangur til að hafa áhrif og það er ekkert launungarmál að ég hefði vilja hafa meiri áhrif með virkri þátttöku í meirihlutasamstarfi. Það varð ekki og voru mér að sjálfsögðu nokkur vonbrigði. Ég og félagar mínir höfum gagnrýnt eitt og annað í rekstri og starfsemi bæjarins sem ég er sannfærður um að við hefðum gert betur en fyrrverandi meirihlutar,“ segir hann.
Það var skýr krafa frá fulltrúum Sjálfstæðisflokks þegar leitað var til þeirra á síðasta ári eftir stuðningi við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021 að það myndi aðeins gerast með formlegri aðild að meirihluta í bæjarstjórn. Úr varð að bæjarstjórnin sameinaðist öll. „Verkefnið var stórt og mikið því hallareksturinn stefndi í áður óþekktar tölur. Samstarf sem þetta reynir á og byggir á því að það ríki traust á milli allra. Staða bæjarfulltrúa verður einnig önnur því það skapast öðruvísi svigrúm til þess að taka afstöðu til mála en ef um nauman meirihluta er að ræða. Það hefur einmitt verið þróunin að bæjarfulltrúar hafa skipst í ólíkar fylkingar með og á móti í ýmsum málum. Það hefur gengið að mestu vel fyrir sig og umræða verið málefnaleg og sanngjörn heilt yfir. Það hafa þó komið upp mál sem hafa reynst erfið en samstarfið heldur enn. Þetta fyrirkomulag er í sjálfu sér ekki nýtt því það raungerist í minni sveitarfélögum þar sem einstaklingar eru kosnir í sveitarstjórn en ekki listar. Það er því að mínu mati vel hægt að láta slíkt samstarf ganga upp, en það er mikil vinna og byggist á trausti og málefnalegri og sanngjarnri umræðu inn á við sem út á við.“
Spurður út í vinnuumhverfið í stjórnmálunum segir Gunnar að það hafi verið að breytast á umliðnum árum og sé að mörgu leyti orðið harðara og flóknara en áður. „Málflutningur og orðræða alltof margra netverja er að mínu mati alveg ólíðandi og í raun mann skemmandi. Þetta verður því miður oft til þess að málefnaleg umræða hverfur í skugga öfgafullra ummæla sem eiga ekkert skylt við málefnið sem um er rætt. Við getum ekki ætlast til að börnin okkar og unga fólkið sýni af sér kurteisi og vandaða framkomu þegar þeir sem eldri eru sýna af sér þá hegðun sem að ofan er lýst. Ég ber þá von í brjósti og óska þess innilega að okkur takist að snúa þessari óheillaþróun við og getum byggt upp samfélag réttlætis og jafnra tækifæra okkur öllum til heilla,“ segir Gunnar að lokum.