Hátíðartónleikar og formleg opnun SinfoniaNord

Mynd/Auðunn Níelsson
Mynd/Auðunn Níelsson

Hátíðartónleikar í tilefni 25 ára afmælis Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og formlegrar opnunar kvikmyndatónlistarverkefnisins SinfoniaNord fara fram í Menningarhúsinu Hofi þann 24. mars. Sérstakur heiðursgestur er Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sem mun opna verkefnið á alþjóðvísu.

„Okkur finnst viðeigandi á þessum tímamótum hjá hljómsveitinni að blása í lúðrana og láta bæjarbúa á Akureyri og umheiminn allan vita hvað við erum að gera mikilvæga hluti fyrir atvinnulífið með Sinfóníuhljómsveitinni í Hofi,“ segir Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson tónlistarstjóri Menningarfélags Norðurlands. Frumflutt verður nýtt verk eftir eitt af höfuðtónskáldum Akureyringa, Atla Örvarsson. Verkið er sérstaklega samið vegna þessara tímamóta. Þá verður flutt hið dulúðlega stórvirki Scheherazade eftir Rimsky-Korsakov. Verkið þykir sannarlega seiðmagnað enda unnið upp úr sögunum úr þúsund og einni nótt.

Feðgin flytja saman sellókonsert

Guðmundur Óli Gunnarsson hljómsveitarstjóri og dóttir hans, Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir sellóleikari, munu flytja saman ásamt hljómsveitinni sellókonsert nr. 2 eftir Dvorák en Guðmundur Óli vann mikilvægt starf fyrir Norðurland í ein 23 ár sem aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Dóttir hans, Hrafnhildur Marta, steig sín fyrstu skref í Tónlistarskólanum á Akureyri og lék með SN og föður sínum á fjölmörgum tónleikum.

„Nú heimsækja þau Akureyri á ný, staðinn sem hafði mikil áhrif á listfengi þeirra, og leggja sitt af mörkum til að gera þessa hátíðlegu stund eftirminnilega í hugum áheyrenda,“ segir í tilkynningu frá MAk.

Nýjast