Dagskráin 18.desember - 8.janúar 2025
Hátíðarhefðir hjá prestum -Munur á helgihaldspresti og sjúkrahússpresti á jólunum
Jólin er hátíð sem margir þekkja og margir hafa sínar hefðir um jólin. Í guðspjöllunum kemur fram að María og Jósef fæddu barn sem var talið barn Guðs.
Mikill munur á sjúkrahúsapresti og kirkjupresti
Ég leit inn til sjúkrahússprestsins séra Svavars Alfreðs Jónssonar og fékk að spyrja hann aðeins um jólahátíðir hjá prestum. Hann segist hafa góðan samanburð þar sem hann er nú sjúkrahússprestur en áður var hann lengi prestur í söfnuði. Hann segir að mikill munur sé á þeim störfum þar sem ekki er neitt helgihald á sjúkrahúsinu en það sé á hinn bóginn stór hluti af starfi kirkjuprests.
„Fylgja því ákveðnir kostir“
Þegar talið barst að því hvernig er að vera prestur yfir hátíðir eins og jólin talaði Svavar um muninn á því að vera kirkjuprestur og sjúkrahússprestur. „Auðvitað fylgja því ákveðnir kostir að vera í fríi en að sjálfsögðu líka söknuður því að það er náttúrlega mikill sjarmi yfir helgihaldi. Helgihald er alltaf yndislegt og yndislegt að fá að vera þátttakandi í því, hvort sem það er að hlusta á fallega texta, tónlist eða hugleiðingar og bænir. Það er fátt fallegra og fátt sem er hollara fyrir sálina.“
Pabbinn Svavar að spila á gítar með frumburði sínum
Smá söknuður af starfi kirkjuprests
Svavar talar um að það hafi verið ákveðinn sjarmi við að undirbúa helgihald fyrir kirkjuna þegar hann var starfandi þar. Undirbúningurinn fólst í því að rifja upp hátíðarsöngvana og huga að jólaræðum.
Hann segir að undirbúningurinn hafi venjulega byrjað snemma í desember þegar hann settist niður með jólaöl og piparkökur til þess að koma sér í jólaskapið.
„Þó að hitt sé óendalega dýrmætt að hafa meiri tíma fyrir sjálfan sig og þá sem í kringum mann eru,“ segir Svavar, þá segist hann líka sakna þess að vera kirkjuprestur um jólahátíðir og þá ekki síst undirbúningstímans.
Hefðir presta yfir hátíðir
„Ætli þær séu ekki bara svipaðar og hjá öðrum,“ segir Svavar sem jafnframt segir að jólahaldið sé alltaf annatími hjá prestum. Á árum áður hafi þessi annatími kannski verið meiri þar sem samgöngur voru ekki jafn tryggar og þær eru í dag. „Þá voru jól og páskar notuð til þess að gifta sig og skíra og slíkt af því að þá var vitað að fjölskyldan yrði öll saman komin.“
Á aðfangadagskvöld voru og eru tvær messur í Akureyrarkirkju, ein klukkan 18:00 og önnur klukkan 23:30. Prestarnir voru tveir og þeir skiptu þessu á milli sín.
Breyting á hefðum heima fyrir vegna prestsstarfsins
Þegar Svavar þurfti að messa kl. 18:00 þurfti fjölskyldan að aðlagast því jafnframt og líka þegar hann var með miðnæturmessuna. „Ef ég var að messa klukkan 18:00 þá borðuðum við ekki fyrr en kannski um 19:30 og höfðum síðan kvöldið alveg út af fyrir okkur.“
Hann segir líka að ef hann messaði klukkan 23:30 hafi þau reynt að vera í fyrra fallinu að borða og tekið upp pakka áður en farið var til messu. Fjölskyldan þurfti þannig að aðlaga sig en Svavar nefnir að prestar séu ekkert einsdæmi hvað það varðar heldur sé þetta eins hjá vaktavinnufólki sem til dæmis vinnur á spítala. Þá sé jafnvel unnið allt aðfangadagskvöld og aðrir á heimilinu þurfi bara að vinna með það.
Finna hvaða erindi boðskapur jólaguðspjallsins á
Svavar segir að það séu forréttindi að fá bæði menntun um og að starfa við kristilegan boðskap jólanna í svona langan tíma og hann sé orðinn mjög náinn honum. Og Svavar spyr: „Hvað eru jól eiginlega að segja manni?“
Þeirri spurningu svarar hann sjálfur að bragði: „Þau geta sagt okkur margt mikilvægt. Jól eru ekki upprunalega hátíð kristinna manna heldur var þetta heiðin hátíð sem seinna meir var kristnuð og gerð að fæðingarhátíð frelsarans.“
Sennilega er það eitt af því sem honum finnst mestu forréttindin við að starfa sem prestur, það er að læra um þetta umhverfi sem jólaguðspjallið gerðist í og hann er orðið náinn því.
Svavar talar um að á hverju einast ári hafi hann þurft að setjast niður í ró og næði og reyna að finna út úr því hvaða erindi þessi boðskapur eigi við okkar tíma. Það finnst honum dýrmætt og eitthvað sem hann muni alltaf búa að. Það er ekkert sem kemur honum í meira jólaskap en fallegur jólasálmur.
„Jólin eru ekki eitthvað bara eitt“
„Jólin eru þetta allt!“ segir Svavar og segir að jólin séu tími fjölskyldunnar og tími gjafa. Það sýni sig í frásögn Mattheusar. Þar gáfu vitringarnir Jesúbarninu gjafir. Þannig megi sjá að gjafir hafa lengi vel fylgt jólum og að sjálfsögðu eru menn þá í kringum sína nánustu.
„Jólin eru ekki eitthvað bara eitt,“ segir Svavar en bendir á að kjarni jólanna í augum hans og augum kristinna manna sé fæðing Jesúbarnsins, að Guð hafi komið í heiminn í þessu litla barni og sýnt okkur að við erum aldrei ein. Það finnst honum svo stórkostlegur boðskapur.
„Það er ekkert sem kallar á meiri umhyggju okkar en lítið barn og þannig kemur Guð til okkar.“ Svavar nefnir að þrátt fyrir að semja mikinn fjölda af jólaræðum þá sé maður aldrei búinn að komast til botns í því hvað jól séu í raun og veru annað en þessi kjarni sem hann býr að.
Svavar og Bryndís, kona hans, að velja sér jólatré fyrir nokkrum árum.