6. nóvember - 13. nóvember - Tbl 45
Hátíð þekkingar, fræða og skapandi hugsunar
Í gær var hátíðisdagur þekkingar, fræða og skapandi hugsunar á Húsavík þegar ný aðstaða þekkingarklasans á Hafnarstétt 1 og 3 var opnuð formlega undir heitinu Stéttin. Íbúum var boðið í formlega athöfn í nýrri og glæsilegri viðbyggingu sem tengir saman gömul hús hvorrar lóðar.
Það er Langaness ehf er eigandi bygginganna en félagið hefur staðið myndarlega að endurbyggingunni og endurbótum á eldri byggingum.
Aðalhönnuður viðbyggingar er Arnhildur Pálmadóttir arkitekt, byggingarstjóri framkvæmda var Ragnar Hermannsson, en húsasmíðameistari og stjórnandi framkvæmda á byggingarstað var Benedikt Kristjánsson.
Í tilefni afhendingar þessarar nýju tengibyggingar var almenningi boðið að kynna sér aðstöðuna í gær. Forseti Íslands, Guðni Th. var mættur á svæðið og ávarpaði gesti og Óli Halldórsson forstöðumaður sagði frá sögu Þekkingarnets Þingeyinga og mikilvægi starfseminnar fyrir nærsamfélagið.
Fjölmargir gestir voru samankomnir til að fagna tímamótunum og í kjölfar ræðuhalda var þeim boðið að skoða aðstöðuna. Starfsfólk klasans sat fyrir svörum um allt milli himins og jarðar. Til að gera daginn enn hátíðlegri mætti Valdimar Guðmundsson og söng nokkur lög með hljómsveit sinni LÓN ásamt söngkonunni RAKEL.
Nánar verður fjallað um þetta í Vikublaðinu sem kemur út á fimmtudag.