Háskólinn á Akureyri gestgjafi erlendra sérfræðinga í sjávarútvegi
Fulltrúar Auðlindadeildar tóku á dögunum á móti 15 gestum á vegum Sjávarútvegsskóla GRÓ Þekkingarmiðstöðvar Þróunarsamvinnu. Skólinn var áður undir merkjum Háskóla Sameinuðu þjóðanna og færðist þaðan árið 2020 yfir í Sjávarútvegsskólann GRÓ sem rekinn er af Utanríkisráðuneytinu sem hluti af þróunarsamstarfi Íslands. Hópurinn sem heimsótti HA nú samanstóð af sérfræðingum á sviði sjávarútvegsmála frá níu Kyrrahafseyjum, Tonga, Kíribatí, Túvalú, Samóa, Fiji, Vanúatú, Marshall eyjum, Ástralíu og Nýja Sjálandi. Þá voru einnig með í för fimm einstaklingar frá Alþjóðabankanum (World bank)
Hópurinn dvaldi á Íslandi í 11 daga og var tilgangur heimsóknarinnar að kynnast reynslu Íslendinga af þróun sjávarútvegs og sátu gestir fundi með kollegum hér á landi og heimsóttu stjórnsýslustofnanir, rannsóknarsetur, háskóla, fiskvinnslu, útgerðir og tækni- og þjónustufyrirtæki svo eitthvað sé nefnt.
Hreiðar Þór Valtýsson og Hörður Sævaldsson, sérfræðingar við HA, sáu um að skipuleggja fimm daga heimsókn til Akureyrar í samstarfi við Fiskistofu.
„Samstarf sem þetta er gríðarlega verðmætt fyrir okkur hér hjá háskólanum enda dýrmætt að fá að kynna eigin starfsemi en einnig að tengjast sérfræðingum á sama sviði úr eyjaumhverfinu þó að ólíkar aðstæður séu til staðar,“ segir Hreiðar aðspurður um ávinning af slíku samstarfi. „Við lögðum áherslu á verðmætasköpun á svæðinu og á fjölbreytileikann með því að heimsækja bæði minni og stærri fyrirtæki, fara í hvalaskoðun, Síldarminjasafnið og enduðum á að bjóða þeim á fiskihlaðborð í nýju mötuneyti HA. Þá er líka gaman að kenna öllum að flaka fisk og þá sérstaklega fulltrúum Alþjóðabankans“ bætir Hreiðar við.
Samstarfið á sér langa sögu eða síðan Sjávarútvegsskólinn var stofnsettur árið 1998. Síðan þá hafa margir nemendur frá fjölmörgum löndum dvalist á Akureyri við nám og verkefnavinnu. HA byggir á styrk sínum í sjávarútvegsfræði ásamt mikilvægu samstarfi við Fiskistofu og blómlegan sjávarútveg í næsta nágrenni.