Háskólinn á Akureyri aðili að 19 af 25 verkefnum sem fá úthlutun
Í gær kynnti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hvaða samstarfsverkefni háskólanna hljóta úthlutun úr samstarfssjóði háskóla. Háskólinn á Akureyri sótti um styrki til að leiða sjö verkefni og vera samstarfsaðili að 21 verkefni. Þetta kemur fram á heimasíðu HA en skólinn hlaut styrk fyrir alls 19 verkefni. Þar af mun HA leiða þrjú verkefni. Þau eru:
- Undirbúningsnámskeið fyrir innflytjendur og flóttamenn á Íslandi
Háskólinn á Akureyri og Háskóli Íslands fá 53 m.kr. til að setja á laggirnar 60 eininga undirbúningsnámskeið fyrir innflytjendur og flóttamenn á Íslandi, meðal annars til að auka færni þeirra í íslensku og búa þá undir nám hér á landi. Fjarnám verður notað til að tryggja gott aðgengi að náminu. Markus Hermann Meckl, prófessor og deildarforseti Félagsvísindadeildar, mun leiða verkefnið. - Tæknifræðinám fyrir nemendur á Norðurlandi
Háskólinn á Akureyri og Háskólinn í Reykjavík fá 33 m.kr. til að setja á laggirnar B.Sc.-nám í iðnaðar- og orkutæknifræði fyrir tæknifræðinga á Akureyri haustið 2023. Námið mun styðja atvinnulíf á Norðurlandi en með því gefst nemendum tækifæri til að stunda námið í heimabyggð, sbr. fullgilt tæknifræðinám sem nú þegar er í HR. Ólafur Jónsson, verkefnastjóri við Heilbrigðis-, viðskipta og raunvísindasvið, mun leiða verkefnið. - Sameiginlegt meistaranám í heilsugæsluhjúkrun
Háskólinn á Akureyri og Háskóli Íslands fá 9 m.kr. til að undirbúa meistaranám í heilsugæsluhjúkrun fyrir hjúkrunarfræðinga alls staðar af landinu. Sérstök áhersla verður á nýjungar í nýtingu fjarheilbrigðisþjónustu. Sigríður Sía Jónsdóttir, dósent við Hjúkrunarfræðideild, mun leiða verkefnið.
„Það var ánægjulegt að sjá árangur Háskólans á Akureyri þegar Áslaug Arna kynnti niðurstöður valnefndar samstarfssjóðs HVIN. Háskólinn á Akureyri hefur verið með öflugt samstarf við háskóla hér á landi sem erlendis um margra ára skeið og sýnir þessi niðurstaða skýrt hversu vel í stakk búinn HA er til slíks samstarf, enda er HA með í 19 verkefnum af 25 sem fengu styrk,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA.
Af þeim 16 verkefnum sem Háskólinn á Akureyri er samstarfsaðili að er stærsta verkefnið Uppbygging á færni- og hermikennslu í heilbrigðisvísindum á Íslandi í samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Landsspítalann og Sjúkrahúsið á Akureyri. Verkefnið fær 165 m.kr. til að setja á laggirnar sérhönnuð færni- og hermisetur til að unnt verði að fjölga nemendum í klínísku námi. Hermikennsla felst í að herma með tæknibúnaði eða leiknum sjúklingum eftir raunverulegum aðstæðum, aðgerðum eða inngripum í öruggu umhverfi, með leiðbeinanda, án þess að heilsu sjúklings sé stefnt í hættu. Sambærilegt framlag kemur frá heilbrigðisráðuneytinu. Um er að ræða stærstu einstöku úthlutunina úr sjóðnum. Tengiliðir verkefnisins eru Þórhalla Sigurðardóttir, aðjúnkt við Hjúkrunarfræðideild, Margrét Hrönn Svavarsdóttir, dósent við Hjúkrunarfræðideild, og Sigrún Kristín Jónasdóttir, lektor og deildarforseti Iðjuþjálfunarfræðideildar.
„Við í Háskólanum á AKureyri erum afskaplega glöð og ánægð með að ráðuneytin tvö hafi sameinast um að veita alls 330 m.kr. styrks til uppbyggingar á færni- og hermikennslu í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri, Háskóla Íslands, Sjúkrahúsið á Akureyri og Landspítala. Segja má að styrkurinn sé skýr fyrirheit um að á næstu árum komi til straumhvarfa í kennsluháttum og þjálfun nýs heilbrigðisstarfsfólks og í endurmenntun þeirra sem fyrir eru. Styrkurinn á að leiða til aukinna gæða og fagmennsku sem háskólarnir og heilbrigðisstofnanirnar tvær munu sameinast um að raungerist á næstu misserum. Við hlökkum til samstarfsins og þeirrar vinnu sem framundan er,“ segir Kristján Þór Magnússon, forseti Heilbrigðis-, viðskipta og raunvísindasviðs.
„Það er von mín að þessi sjóður og ný nálgun við úthlutun fjármuna muni skila íslensku háskólakerfi og stúdentum þess alþjóðlega samkeppnishæfu námi sem dregur til sín enn fleiri erlenda stúdenta til að efla Ísland og íslenskan mannauð. Þessi fyrstu skref lofa góðu,“ segir Eyjólfur Guðmundsson að lokum.