13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Halli á rekstri bruna- og almannavarna Norðurþings eykst milli ára
Málefni slökkviliðsins á Húsavík hafa verið í umræðunni að undanförnu og þá sérstaklega nýja slökkvistöðin á Norðurgarði en kostnaður vegna framkvæmdarinnar er eignfærður 327 milljónir króna. Í kostnaðaráætlun Norðurþings kemur fram rekstrarniðurstaða síðasta árs fyrir málaflokkinn brunavarnir og almannavarnir, útgönguspá fyrir 2020 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2021-2023. Í grein sem birtist á fréttavefnum 640.is eftir Valdimar Halldórsson á dögunum veltir greinarhöfundur neikvæðri rekstrarniðurstöðu málaflokksins fyrir sér.
Árið 2019 var rekstrarniðurstaða málaflokksins brunavarnir og almannavarnir neikvæð um 52 milljónir en útgönguspá fyrir 2020 gerir ráð fyrir staðan verði neikvæð um 81 milljónir króna. Enn fremur gera áætlanir ráð fyrir því að neikvæð staða málaflokksins verði 86 milljónir
Kristján Þór Magnússon segir í samtali við Vikublaðið að munurinn felist fyrst og fremst í því að nýtt húsnæði hafi verið tekið í notkun. „Það er ekkert annað. Þetta er innri leiga sem greiðist til eignasjóðs. Slökkviliðið leigir sinn hluta húsnæðisins af eignasjóði, það er í sjálfu sér enginn kostnaðarauki annar sem um er að ræða,“ segir hann.
„Við erum auðvitað búin að leggja hart að okkur síðustu ár að afla tekna svo við séum ekki ein með allar þessar byrðar sem þó eru á okkur. Auðvitað vissum við að þegar við tókum húsnæðið í gegn að málaflokkurinn þyrfti að kosta það sem hann kostar. Við höfum líka verið að taka eignasjóð í gegn til að gera hann gegnsærri svo íbúar sjái það hvar kostnaður verður til í sveitarfélaginu. Þess vegna höfum við verið að uppfæra innri leiguna, ekki bara hjá slökkvistöðinni heldur alls staðar,“ segir Kristján og tekur Sundlaug Húsavíkur sem dæmi en eftir að ný vatnsrennibraut var tekin í notkun var þar komið nýtt mannvirki sem hefur áhrif á þetta leiguverð til eignasjóðs.
Tekjur hafa lækkað
Þá vekur einnig athygli að tekjur málaflokksins hafa lækkað miðað við niðurstöður ársins 2019 sem voru tæpar 43 milljónir en þar er fyrst og fremst um að ræða tekjur af þjónustusamningum við Heilbrigðisstofnun Þingeyinga (HSN) og PCC á Bakka. Þessar tekjur lækka talsvert miðað við útgönguspá ársins sem er að líða, fer niður í 37,6 milljónir rúmar.
„Vegna Covid, samþykktum við það að veita afslátt í tvo mánuði af þjónustugjöldum til PCC á Bakka, það munar um það. Ég á von á því að ná því til baka á næsta ári þegar PCC fer af stað aftur,“ útskýrir Kristján.
Í þriggja ára fjárhagsáætluninni sem Norðurþing hefur lagt fram má þó sjá að gert er ráð fyrir að tekjurnar lækki lítilsháttar árið 2021, í tæpar 37 milljónir. Svo er gert ráð fyrir að tekjur málaflokksins hækki rólega og verði árið 2023 komnar í 38,8 milljónir króna en nær ekki þeim tæpu 43 milljónum sem málaflokkurinn aflaði í tekjur árið 2019.
Það eru þrjú heil stöðugildi hjá Slökkviliðinu á Húsavík sem sinna starfi slökkviliðsmanna og annast sjúkraflutninga fyrir HSN, þá eru einnig fleiri hlutastarfandi slökkviliðsmenn á Húsavík, Kópaskeri og Raufarhöfn.
Nýr þjónustusamningur við PCC er tilbúinn til undirritunar og hann verður að sögn Kristjáns á sömu nótum og fyrri samningur sem hljóðaði upp á tæpar 19 milljónir króna. „Við erum líka með samning við HSN um sjúkraflutningavakt á bíl 2. Þannig að í grunninn erum við með þjónustusamninga sem kosta það sem ekki var hér á staðnum árið 2014,“ segir hann og bætir við að hann sé stoltur af rekstri málaflokksins.
„Ég hef ekki sérstakar áhyggjur af því til framtíðar að við séum að reka slökkvilið sem er úr hófi fram dýrt miðað við þá þjónustu sem við erum að veita og hvað við eigum í raun og veru að gera í málaflokknum svo hann standist lög. Ég er heilt yfir stoltur af því hvernig málaflokkurinn er rekinn í sveitarfélaginu og hvað við náum að gera fyrir þennan pening. Auðvitað tekur það í þegar ný mannvirki eru tekin í notkun og það þarf að sýna hvar þessi kostnaður verður til.“