27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Hafdís Sigurðardóttir hjólaði yfir þúsund kílómetra á 46 tímum
„Ég er ótrúlega stolt af sjálfri mér að hafa ákveðið að gera þetta. Ég var alltaf að bíða eftir því að líkaminn myndi bara segja stopp en alltaf gat ég haldið áfram, ég vissi alveg að hausinn gæti þraukað lengi,“ segir Hafdís Sigurðardóttir hjólreiðakona, bæði Akureyrar og Íslands en hún vann það afrek um liðna helgi að hjóla 1012 kílómetra og var samfleytt að í 46 klukkutíma. Hún byrjaði á föstudegi kl. 15 og var að fram yfir hádegi á sunnudag.
Hafdís hefur ekki fundið nein sérstök eftirköst eftir „hjóltúrinn“, en þegar hún hætti hélt hún heim til sín „og það fyrsta sem ég gerði var að skella mér í sturtu og svo slökknaði alveg á mér í svona þrjá tíma, var frekar dofin það sem eftir var dagsins en náði að hvíla mig vel og sofna snemma.“
17.634 hitaeiningar
Hafdís fékk hugmyndina síðastliðið sumar þegar Bakgarðshlaupið sem svo er kallað fór fram, en fyrirkomulag þess er þannig að þátttakendur hlaupa 6,7 kílómetra á klukkustund og stendur hlaupið yfir þar til einn stendur uppi. Hún yfirfærði þá hugmynd á hjólin og eftir prófanir varð niðurstaðan að hjóla 22 kílómetra á klukkustund, en það tekur Hafdís um 45 mínútur að hjóla þá vegalengd, þannig að á milli skapast smá tími til að hvíla sig og nærast. Mikilvægt í þessu öllu hafi verið að ná að nærast allan tímann, en öðru vísi væri ekki hægt að halda þessari keyrslu áfram. Öll næring var skráð samviskusamlega niður og hún borðaði á þessum tíma alls 17. 634 hitaeiningar.
Besta stuðningsfólkið
Hafdís segir að allt hafi gengið upp, en í kringum hana var góður hópur til aðstoðar auk þess sem margir litu við og hjóluðu til stuðning með henni. „Ég er enn í sjokki yfir öllu fólkinu sem kom og kíkti á mig, hjólaði með mér og studdi við bakið á mér. Ég fékk líka mikið af skilaboðum og þetta gladdi allt saman. Svona verkefni er ómögulegt að klára einn. Allt mitt nánasta fólk var í kringum mig og sá til þess að allt annað en hjólið væri klárt, nudd, næring, þurrka föt og græja hrein föt og gera bara yfirleitt allt sem þarf, öðruvísi er þetta ekki hægt,“ segir hún. „Mér finnst ég eiga besta stuðningsfólkið það er bara þannig.“
Erfitt að belta pening
Hafdís hefur staðið straum af allri sinni þjálfun og keppnisferðum sjálf. Á meðan Hafdís hjólaði var áheitum safnað og segir hún þá hugmynd hafa komið upp eftir á. Sjálf eigi hún mjög erfitt með að belta pening, finnist það leiðinlegt og erfitt. Hún hafi því að mestu sjálf séð um alla kostnað við t.d. keppnisferðalög. Hjólareiðafélag Akureyrar og Hjólreiðasamband Íslands hafi veitt henni styrki sem hún er þakklát fyrir en hafa ekki úr miklum fjármunum að spila.
Á komandi ári stefnir Hafdís á nokkrar keppnisferðir, m.a. á Evrópumót sem haldið verður í Glasgow, en hún segir mikilvægt að komast sem mest á stórmót.
Til í þetta aftur en ekki strax
Hjólreiðaheimurinn á Íslandi sé lítill og þegar vel sé eru um 12 konur ræstar út í keppni í einu. „Það eru um 120 konur ræstar út í stóru mótunum og það er eitthvað sem þarf líka að æfa sig í, að hjóla í svo stórum hóp,“ segir Hafdís hin hressasta eftir þrekraun helgarinnar.
„Þetta var ótrúlega skemmtilegt og vá bara hvað tíminn var fljótur að líða, mér finnst engan vegin eins og þetta hafi verið 46 tímar,“ segir hún og kveðst alveg geta hugsað sér að gera þetta aftur, „en það verður þó ekki strax, það eru önnur verkefni framundan sem ég er að takast á við og þarf að einbeita mér 150% að,“ segir hún.