27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Háborðið í Hrísey er tilbúið
Lokið er framkvæmdum við hið svokallaða Háborð í Hrísey en það er vinsæll áfanga- og áningarstaður þeirra sem fara í gönguferðir um eyjuna. Það er á hæð með vítt útsýni til allra átta. Þar liggja saman þrjár af fjórum merktum gönguleiðum um eyjuna og því þykir gott að hvílast þar, snæða nestisbita og skyggnast til allra átta. Auðvelt er að komast að Háborðinu nema í miklum snjóþyngslum.
Undanfarin ár hefur verið unnið að uppbyggingu á útivistarsvæðum í Hrísey en gönguferðir eru afar vinsælar um þessa náttúruperlu til að njóta fegurðar og friðsældar jafnt á meðal ferðafólks og heimamanna. Fengist hafa styrkir til stígagerðar í Hrísey og til að ljúka fyrsta áfanga Háborðsins árið 2013 þegar svæðið var hellulagt. Í aukaúthlutun Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða vorið 2021 fékkst síðan styrkur upp á 5,4 milljónir króna til að byggja skjólvegg og ramma inn svæðið.
Fyrirtækið EB ehf. á Dalvík lauk þeirri vinnu í liðinni viku þegar hlaðinn var skeifulaga veggur sem er í senn rammi, bekkur og skjólveggur. Umhverfis og mannvirkjasvið Akureyrarbæjar hélt utan um framkvæmd verkefnisins í samstarfi við atvinnu- og menningarteymi Akureyrarbæjar og Ferðamálafélag Hríseyjar.
Frá þessu segir á www.akureyri.is