G.V. með læsta boð í vegagerðina
G.V. Gröfur ehf. á Akureyri áttu lægsta tilboð í lagningu nýs vegar við Eyjafjarðarbraut vestra meðfram bökkum Eyjafjarðarár neðan við Hrafnagilshverfið. Alls bárust fjögur tilboð í verkefnið. Vegagerðin bauð verkið út og voru tilboð opnuð nýverið.
Áætlaður verktakakostnaður er tæpar 500 milljónir króna. Öll tilboðin sem bárust voru frá norðlenskum fyrirtækjum og öll undir kostnaðaráætlun. Tilboð frá G.V. Gröfur var upp á 375,5 milljónir króna 75% af áætluðum kostnaði. G. Hjálmarsson bauð 471,4 milljónir króna, um 95% af kostnaðaráætlun. Nesbræður buðu 478,5 milljónir króna eða um 96% af áætluðum kostnaði. Árni Helgason ehf. í Ólafsfirði átti hæsta boð, um 490 milljónir króna.
Verkefnið snýst um að flytja Eyjafjarðarbraut vestari austur fyrir Hrafnagilshverfið þannig að vegurinn liggi meðfram árbakka Eyjafjarðar. Vegalengdin er um 3,6 kílómetrar. Nýjar heimreiðar verða einnig lagðar samhliða, um 250 metrar langar. Tvær tengingar verða gerðar, önnur við Jólahúsið og hin syðst í hverfinu, norðan við Bakkatröð. Verktími er áætlaður rúm tvö ár en verkinu á að vera að fullu lokið fyrir 15. júlí 2024.
Um 300 íbúar eru í Hrafnagilshverfi nú en samkvæmt nýju deiliskipulagi sem er í kynningu er gert ráð fyrir um það bil 100 nýjum íbúðum í hverfinu.