Gunnar Egill tekur við sem forstjóri Samkaupa

Ómar Valdimarsson, sem verið hefur forstjóri Samkaupa undanfarin 13 ár og Gunnar Egill Sigurðsson ve…
Ómar Valdimarsson, sem verið hefur forstjóri Samkaupa undanfarin 13 ár og Gunnar Egill Sigurðsson verðandi forstjóri.

Ómar Valdimarsson, sem verið hefur forstjóri Samkaupa undanfarin 13 ár, hefur ákveðið að láta af störfum hjá félaginu. Gunnar Egill Sigurðsson tekur við starfi forstjóra en hann hefur starfað hjá Samkaupum í 20 ár, nú síðast sem framkvæmdastjóri verslunarsviðs. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkaupum.

Forstjóraskiptin munu eiga sér stað um mánaðamótin mars – apríl, í kjölfar kynningu ársuppgjörs síðasta árs sem var afar gott í rekstri fyrirtækisins þrátt fyrir miklar áskoranir síðustu ára vegna heimsfaraldursins.

Ómar hefur starfað í 26 ár sem stjórnandi hjá Samkaupum, þar af sem forstjóri fyrirtækisins í 13 ár eða frá árinu 2009. Hann hefur stýrt fyrirtækinu í gegnum mikla umbreytingu og vöxt, ekki síst með aukinni sókn á höfuðborgarsvæðinu. Í dag eru verslanir fyrirtækisins á 65 stöðum á landinu og fyrirtækið veltir ríflega 40 milljörðum króna. Þá er framundan opnun 66. verslunarinnar, en á dögunum var undirritaður leigusamningur fyrir nýja Nettó verslun sem verður sú níunda á höfuðborgarsvæðinu.

„Við viljum þakka Ómari fyrir einstakt framlag hans til vaxtar og viðgangs Samkaupa á síðustu árum. Það vita allir sem þekkja til hans starfa hversu stórt hlutverk hann hefur leikið í að búa til gott fyrirtæki og góðan vinnustað sem að stór hluti þjóðarinnar verslar við, í hverri viku. Að sama skapi er ég feikilega ánægður með ráðningu Gunnars Egils, sem þekkir fyrirtækið afar vel og mun um leið koma með ferskar áherslur inn í þau stóru verkefni sem framundan eru hjá Samkaupum,“ segir Skúli Skúlason, stjórnarformaður Samkaupa

„Það er spennandi vegferð framundan. Ég hlakka til að fylgja eftir stafrænni þróun og sjálfvirknivæðingu í þjónustu og starfsemi Samkaupa. Þá vil ég auka enn frekar áherslur okkar á samfélagslega ábyrgð og halda áfram að gera Samkaup að frábærum vinnustað,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, verðandi forstjóri Samkaupa.

 

 

Nýjast