Dagskráin 18.desember - 8.janúar 2025
Gul viðvörun í veðrinu
Lögreglan á Norðurlandi eystra sendi út tilkynningu fyrir skömmu og varar þar við veðri sem skella mun á okkur seinna í dag og standa fram á nótt.
,, Kæru samborgarar.
Við vildum rétt minna á að nú eru gular veðurviðvaranir í kortunum fyrir stóran hluta landsins. Gildistími þeirra er misjafn eftir landsvæðum og hvetjum ykkur til að kynna ykkur þetta og hafa varann á, sérstaklega ef þið hyggið á ferðalög.
Á Norðurlandi eystra gildir gul veðurviðvörun frá kl. 19:00 í dag, 23.12.2024 og til kl. 02:00 þann 24.12.2024. Spáð er suðvestan vindi upp á 18-25 m/s og vindhviðum sem geta farið yfir 35 m/s. Suðvestan áttin hefur átt það til að gera skráveifu á t.d. Akureyri og því hvetjum við ykkur til að huga að því að ekki séu lausamunir á ykkar vegum sem gætu lagt á flótta með vindinum.
Nánari upplýsingar um þróun mála er svo að finna á vedur.is og vegagerd.is Fyrir áhugasama er einnig athyglivert að skoða síðuna windy.com sem sýnir vindakerfin á mjög sjónrænan hátt.
Við vonum að ykkur gangi vel í lokaundirbúningi jólahátíðarinnar og að Kertasníkir nái að rækja störf sín þrátt fyrir leiðinda veður.”