Grýtubakkahreppur hætti við hækkanir
Í nóvember sendi Eining-Iðja fyrirspurn á öll sveitarfélög á svæðinu og óskaði eftir upplýsingum hvort áætlað sé í fjárhagsáætlun viðkomandi sveitarfélags að hækka gjaldskrár þess fyrir árið 2014. Tvö svör bárust í vikunni. Í tölvupósti sem barst formanni félagsins var tilkynnt að á fundi sveitarstjórnar Grýtubakkahrepps í vikunni hafi verið ákveðið að draga til baka hækkun á leikskólagjöldum um áramótin. Þetta kemur fram á heimasíðu Einingar-Iðju
5% hækkun í Hörgársveit
Í bréfi sem barst frá Hörgársveit segir að gert sé ráð fyrir að dvalargjald á leikskóla á næsta ári hækki um 5% frá fyrra ári en jafnframt er tekið fram að það hafi í raun ekki hækkað síðan 2006. Mötuneytisgjöld munu einnig hækka um 5% milli ára. Sorpgjöld heimila og frístundahúsa verða óbreytt milli ára svo og vatnsgjald á Hjalteyri.