Grunn-og leikskólabörnum í Hrafnagili fjölgar töluvert á milli ára
Mikil gróska er í Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit og fjölgar fólki ört í sveitarfélaginu. Í Hrafnagilsskóla hefur fjölgað um 10% frá upphafi síðasta skólaárs eða úr 153 börnum í 169. Í leikskólanum Krummakoti hefur fjölgað um 12% frá upphafi síðasta skólaárs eða úr 54 í 61 barn. Í leikskólanum fjölgar almennt töluvert mikið yfir skólaárið og má reikna með að þar verði um 70 börn næsta vor að sögn Finns Yngva Kristinssonar sveitarstjóra í Eyjafjarðarsveitar.
„Það er því mjög jákvæð íbúaþróun í sveitarfélaginu,“ segir Finnur. Þá er í undirbúning framkvæmd á stækkun skólahúsnæðisins sem er komið í lokahönnunarferli. „Arkitektar eru langt komnir og er komið að því að undirbúa jarðveginn fyrir bygginguna sjálfa. Nú hafa verið rifnar nokkrar aspir sem stóðu á fyrirhuguðum byggingarreit og er það fyrsti vísir af því að verkefnið verði að raunveruleika innan skamms,“ segir Finnur.
Skólahúsnæðið sem er verið að hanna tekur mið af því að verða miðstöð fyrir íbúa sveitarfélagsins. Mun það rúma leikskóla, grunnskóla og bókasafn/upplýsingaver ásamt fjölnota sal og glæsilegri starfsmannaaðstöðu. Þá verða aðgengismál fyrir neðri hæð íþróttahúss stórbætt með lyftu og verður byggt ofan á sundlaugarbygginguna, viðbygging sem mun í framtíðinni hýsa glæsilega líkamsræktaraðstöðu.