GRÓ Sjávarútvegsskólinn fær góða umsögn í alþjóðlegu mati

Funny Mkwiyo  frá í Malaví etv i nokkuð framandi umhverfi en samt  sátt við lífð.  Mynd UNAK
Funny Mkwiyo frá í Malaví etv i nokkuð framandi umhverfi en samt sátt við lífð. Mynd UNAK

GRÓ Sjávarútvegsskólinn sem Háskólinn á Akureyri er þátttakandi í, hefur hlotið lof í nýju mati alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækisins GOPA. Skólinn, sem starfar undir merkjum UNESCO, hefur útskrifað um 500 sérfræðinga úr sex mánaða námi í fiskistjórnun, auk þess sem 1.700 sérfræðingar hafa sótt styttri námskeið við skólann. Í matsskýrslunni er sérstaklega horft til framlags skólans til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni, einkum markmiðs 14 um líf í vatni.

Í matinu kom fram að árangur GRÓ fiskeldisþjálfunaráætlunar byggist á heimsklassa þekkingu Íslands þegar kemur að fiskveiðum og samstarfi við stofnanir í samstarfslöndum. Áætlunin leggur áherslu á kynjajafnrétti, þar sem konur voru 55% þátttakenda á tímabilinu 2018–2024. Endurgjöf frá útskrifuðum nemendum sýndi mikla ánægju, þar sem 80% sögðust hafa orðið sterkari faglega og haft raunveruleg áhrif á sitt svið eftir að hafa lokið náminu.

Einn af fjórum nemendahópum skólans er þessa dagana staðsettur við Háskólann á Akureyri, þar sem áhersla er lögð á sjálfbæra fiskveiðistjórnun og arðbærni í sjávarútvegi. Árangur skólans er talinn mikilvægur þáttur í að efla sjálfbærni í sjávarútvegi og styrkja stöðu Háskólans á Akureyri sem miðstöð þekkingar á þessu sviði. Magnús Víðisson, brautarstjóri í Sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri og umsjónarmaður nemendahópsins, segir námið vera fjölbreytt og byggja á samstarfi við íslenskar stofnanir og fyrirtæki. „Nemendur fá yfirgripsmikla fræðslu og taka þátt í vettvangsheimsóknum og læra þannig af íslenskri reynslu,“ segir Magnús. Í ár koma nemendur til Akureyrar alla leið frá Tansaníu, Úganda og Kenía svo dæmi séu nefnd og dvelja þeir á Akureyri fram í maí.

Nútímavæðing í bland við kalt loftslag góð blanda

Funny Mkwiyo sem kemur frá Malaví er nemandi GRÓ skólans og hún lýsir náminu sem „einstakri og umbreytandi reynslu“. Hún segir þekkinguna og færnina sem hún öðlast við skólann ómetanlega, sérstaklega tækifærið að læra frá heimsklassa sérfræðingum. „Námið veitir mér hagnýta innsýn og þróuð hugtök sem ég get örugglega beitt til að efla sjávarútvegsgeirann í heimalandi mínu,“ segir Funny.

Aðspurð um dvölina á Akureyri lýsir Funny bænum sem friðsælum stað sem gerir það auðvelt að einbeita sér að námi og því að horfa inn á við. „Ég nýt fegurðar Akureyrar, einstakrar menningar hennar og friðsæls umhverfis. Náttúran, hvalaskoðun og norðurljósin eru stórkostleg. Starfsfólk HA er aðgengilegt og hjálpsamt.“ Hún segir einnig nútímavæðingu nánast alls staðar koma á óvart sem sé ánægjulegt, allt frá skilvirku eftirliti og vöktun sjávarauðlinda með nútíma tækniframförum hjá Fiskistofu, nýtingu endurnýjanlegrar orku, heitu vatni, stundvísri strætóþjónustu og mörgum öðrum þróuðum tækniaðgerðum. „Það er líka frábært að sjá hvernig bærinn viðheldur jafnvægi milli nútímaþæginda og smábæjarsjarma og það kemur mér á óvart hversu vel ég hef aðlagast kalda loftslaginu – það er ný reynsla en ég hef lært að meta það,“ bætir Funny við að lokum.

 

 

Nýjast