Grín, rokk og R&B tónlist á Græna hattinum

Hljómsveitin The Vintage Caravan halda tónleika á Græna hattinum um helgina.
Hljómsveitin The Vintage Caravan halda tónleika á Græna hattinum um helgina.

Grínistarnir  úr Goldengang Comedy snúa aftur til Akureyrar og verða á Græna hattinum annað kvöld, fimmtudagskvöldið 21. febrúar. Goldengang eru engir nýgræðingar þegar kemur að uppistandi en hópurinn hefur haldið yfir 400 sýningar síðustu fjögur árin. „Núna ætla þeir að senda þrjá af sínum allra fyndnustu uppistöndurum norður, þá Gísla Jóhann, Arnór Daða og York Underwood,“ segir í tilkynningu en uppistandið hefst kl. 21:00.

The Vintage Caravan halda tónleika á föstudeginum 22. febrúar. Sveitin gaf nýverið út sína fjórðu breiðskífu sem ber nafnið Gateways en henni var vel tekið af bæði aðdáendum og gagnrýnendum. Hljómsveitin kom heim fyrir jól eftir sex vikna tónleikaferðalag um Evrópu. Mikið var um uppselda tónleika og fékk bandið víða góða dóma fyrir tónleika sína. “THE VINTAGE CARAVAN have created a milestone for the new generation of hard rock!" ROCK IT!“, sagði m.a. í einum dómi. Tónleikarnir hefjast kl.22.00.

Tónlistarmaðurinn Auður gaf út sína aðra breiðskífu í nóvember síðastliðnum sem ber heitið Afsakanir. Af því tilefni ætlar Auður að blása til tónleika á Græna hattinum á laugardagskvöldið 23. febrúar. Auður og platan hans Afsakanir hafa fengið frábærar viðtökur en hann frumflutti plötuna á Iceland Airwaves og fékk mikið lof fyrir. Platan hefur vakið mikla athygli fyrir að vera framsækin, einlæg og beinskeitt og sumir gagnrýnendur og tónlistarspekúlantar vilja meina að hún sé tímamótaplata í íslenskri R&B-tónlist. Nýja platan verður leikin í heild sinni en einnig hans þekktustu lög af fyrri útgáfum. Tónleikarnir hefjast kl. 22.00.

 

Nýjast