Grímseyingar standa þétt saman

Grímseyingar ákváðu á fundi í gærkvöld að endurreisa kirkjuna og er söfnun hafin. Mynd Henning Jóhan…
Grímseyingar ákváðu á fundi í gærkvöld að endurreisa kirkjuna og er söfnun hafin. Mynd Henning Jóhannesson

Grímseyingar komu saman í Múla, félagsheimili eyjarinnar í gærkvöld. Samþykkt var einróma að byggja nýja kirkju í svipaðri mynd og Miðgarðakirkja var, en hún brann til grunna aðfaranótt miðvikudags.

 

 

„Íbúar Grímseyjar vilja koma á framfæri þakklæti til þjóðarinnar sem hefur sýnt þeim einstakan samhug og stuðning á erfiðum tímum,“ segir í tilkynningu sem Anna Björg Bjarnadóttir verkefnastjóri Glæðum Grímsey sendi fyrir hönd eyjaskeggja.

 Kveðjur hafa borist eftir eldsvoðann sem varð kirkjunni að bráð, m.a. frá forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni sem sendi Grímseyingum samúðarkveðjur vegna brunans. „Skaðinn er mikill, en þakkarvert að manntjón hafi ekki orðið,“ segir hann í kveðju sinni. Fallegir munir hafi glatast að eilífu en byggingar sé hægt að endurreisa ef vilji er fyrir hendi. Grímseyingar tóku þann bolta og ákváðu á fundinum í gærkvöld að endurreisa kirkjuna.

Katrín Jakobsdóttir ritar einnig um brunann á fésbók og segir um mikið áfall að ræða fyrir samfélagið í Grímsey. Ljóst sé að merkar menningarminjar hafi eyðilagst og tjónið óbætanlegt.  „Hugur minn er hjá íbúum og öllum þeim sem unnu þessari merku kirkju. Stjórnvöld munu ræða við heimamenn og ég er viss um að það verður ríkur vilji allra til að styðja við bakið á þeim í kjölfarið.“

 

Þeim sem vilja styrkja verkefnið er bent á reikning Miðgarðakirkju, 565-04-250731, kt. 4602692539.

Nýjast