GÓSS og Helgi Björns á Græna hattinum

Hljómsveitin GÓSS spilar á Græna hattinum.
Hljómsveitin GÓSS spilar á Græna hattinum.

Hljómsveitin GÓSS, skipuð þeim Sigurði Guðmundssyni, Sigríði Thorlacius og Guðmundi Óskari Guðmundssyni, heldur tónleika á Græna hattinum í kvöld, fimmtudaginn 29. ágúst.

Tilefnið er útgáfa á fyrstu plötu sveitarinnar, Góssentíð, en efni tónleika verða lög af plötunni í bland við önnur uppáhalds lög hljómsveitarmeðlima. „Um er að ræða hugljúfa og einlæga kvöldstund með okkar fremsta tónlistarfólki sem enginn ætti að láta framhjá sér fara,“ segir í tilkynnningu. Þau Sigríði Thorlacius og Sigurð Guðmundsson þarf vart að kynna en þau hafa lengi verið á meðal dáðustu söngvurum þjóðarinnar. Guðmundur Óskar er einn fremsti og fjölhæfasti bassaleikari landsins en hann hefur leikið með fjölda hljómsveita, auk þess að vinna sem upptökustjóri fyrir fjölmörg verkefni. Sveitin tengist sterkum fjölskyldu- og vináttuböndum en Guðmundur Óskar og Sigurður eru bræður, Sigríður og Guðmundur eru saman í Hjaltalín og öll þrjú hafa þau unnið saman í fjölmörgum mismunandi verkefnum. Það má því segja að það hafi verið nokkuð fyrirsjáanlegt þegar hljómsveitin GÓSS varð til sumarið 2017. Þá lét sveitin draum verða að veruleika og hélt í tónleikaferð um landið. Sveitin endurtók förina árið eftir og hefur jafnframt spilað við alls kyns tilefni um allt land. Tónleikarnir hefjast kl. 21.00.

Á föstudagskvöldið 30. ágúst og laugardagskvöldið 31. ágúst er hins vegar komið að Helga Björnssyni sem hefur átt gifturíkan feril sem söngvari, leikari og athafnamaður. Helgi hefur leitt hljómsveitir eins og Grafík, SSSól, Reiðmenn vindanna og Kokteilpinna, gefið út tónlist með þessum sveitum og í eigin nafni, og löngu orðinn samofinn þjóðarsálinni með lögum sínum og textum. Segir um tónleikana: „Nú kemur Helgi með alla sína margbreytilegu hatta á Græna Hattinn og er tilhlökkunin mikil í herbúðum Helga. Þegar fer að skyggja, fer að birta í sálinni.“

Tónleikarnir hefjast kl. 22 á föstudag en kl. 23.00 á laugardagskvöld vegna Akureyrarvöku.

 

Nýjast