20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Gönguferð um Cinque Terre með meiru
Cinque Terre er svæði á vesturströnd Ítalíu, á Liguriaströndinni, um 70 km sunnan við Genova. Mjög vinsælt er að ganga um þetta svæði og hægt að finna leiðir sem henta öllum. Oddur Helgi Halldórsson var á ferð um Ítalíu í vor og deilir hér ferðasögu sinni með lesendum Vikudags.
Cinque Terre (fimm fjöll) er á vesturströnd Ítalíu, á Liguria ströndinni, um 70km sunnan við Genúa. Mjög vinsælt er að ganga um þetta svæði og hægt að finna leiðir, sem henta öllum.
Það eru í raun og veru fimm sjávarþorp, sem tilheyra Cinque Terre, þau heita í röð frá norðri til suðurs, Monterosso del Mare, Vernazza, Corniglia, Manarola og Riomaggiore er syðst.
Nokkra íslenskar ferðaskrifstofur bjóða upp á skipulagðar ferðir um þetta svæði, en við ákváðum að fara á eigin vegum. Þar sem þetta svæði er mjög vinsælt, verður að skipuleggja ferðina með löngum fyrirvara. Vinsælast er að ganga á milli Monterosso, Vernazza og Corniglia. Það þarf að borga sig inn á þessar gönguleiðir og kostar dagurinn 16 evrur, en 2ja daga passi 29evrur. Innifalið í því eru lestarferðir á milli þorpanna að vild. Lestarnar ganga á cirka 15 mínútna fresti. Lestarferð á milli þorpana, tekur svona 3-5 mínútur. Mínar ráðleggingar eru að fara í maí eða september, því yfir hásumarið er svo mikið af fólki á þessum þröngu göngustígum að erfitt getur verið að komast áfram.
Við vorum fimm sem lögðum land undir fót núna í seint í maí og dvöldum á þessu svæði í nokkra daga.
Dagur 1
Við flugum til Genúa með millilendingu í Munchen. Yfir sumarið er hægt að fljúga beint til og frá Mílanó. Við tókum bílaleigubíl og ókum til Monterrosse del Mare þar sem við gistum allan tímann. Það tók rúman klukkutíma. Bíllinn var ekki hreyfður aftur fyrr en við fórum.
Þar sem öll hótel voru fullbókuð leigðum við okkur íbúð í eldri hluta bæjarins. Hún var ágæt. Eftir að við höfðum komið okkur fyrir notuðum við restina af deginum til að skoða okkur um.
Dagur 2
Dagurinn heilsaði sólríkur og fagur. Það var logn og hitinn um 25°c
Í dag skildi ganga á milli Monterosso og Vernazza. Við byrjuðum á að fara á lestarstöðina, þar sem aðgangskortin voru seld. Við keyptum okkur 2ja daga passa.
Stígurinn
Gönguleiðin er tæpir 5km og ágæt slóð. Hækkun er um 350metrar. Leiðin er brött og slóðinn mjór og oft erfitt að mæta fólki. Þótt leiðin liggi um snarbrattar hlíðar, sem ná í sjó fram, er þetta lítið mál fyrir lofthrædda, því mikið er um gróður og víða eru handrið meðfram gönguleiðinni. Gangan gekk vel og maður svitnaði mikið og fannst sumar brekkurnar upp endalausar. Útsýnið er stórkostlegt svo maður naut hvers skrefs. Á leiðinni gengum við fram á smá rjóður þar sem aldraður ítali var að selja ferskan appelsínusafa og heimabrugg. Brögðuðum við hvoru tveggja. Aðkoman að Vernazza er stórkostlegt sjónarspil og við höfðum á tilfinningunni að við værum stödd í einhverri ævintýraveröld. Um að gera að stoppa oft á göngunni og njóta. Hver velur sinn gönguhraða, en við vorum tæpa 3 tíma að fara þessa leið. Þegar komið var til Vernazza var bærinn skoðaður og myndaður í bak og fyrir. Við fengum okkur hádegishressingu á góðu útiveitingarhúsi. Þegar tími var til að halda heim á leið, var lestin tekin til baka og tók ferðin um 3 mínútur.
Um kvöldið fórum við svo út að borða á mjög góðum sjávarréttaveitingastað, en af þeim er nóg.
Dagur 3
Ennþá sama blíðan. Í dag ákváðum við að taka lestina til Corniglia (ca 8 mínútur) og ganga þaðan til Vernazza. Við byrjuðum á að skoða bæinn, en hann er mjög fallegur. Síðan var strikið tekið upp hlíðarnar í átt að Vernazza. Leiðin er um 4,6km og hækkun upp undir 300 metra. Við tók sama stórkostlega útsýnið og mjög skemmtilegir göngustígar. Á miðri leið gengum við fram á bar, þar sem við fengum okkur hressingu. Myndastoppin voru mörg ,en ferðin á milli þorpana tók um 3 tíma. Þegar komið var niður í bæinn nutum við þess að ganga um hann og skoða betur. Síðan var lestin tekin til Monterosso.
Dagur 4
Þetta var heitasti dagurinn um 30°c og við ákváðum að slappa af og njóta þess að vera til. Við röltum um Monterosso og skoðuðum, kíktum í búðir og höfðum það gott. Við fórum á ströndina og lágum smástund og nutum þess að fara í sjóinn og leika okkur eins og börn.
Við fórum alltaf á nýjan og nýjan veitingarstað á kvöldin og fengum alls staðar góðan mat. Mest er um sjávarrétti, en alls staðar hægt að finna annað ef fólk óskar. Þar sem þetta er geisivinsæll ferðamannastaður var frekar dýrt að borða og má segja að 3ja rétta máltíð, með fordrykk og einni vínflösku sé um 120 evrur fyrir hjón.
Corniglia, Manarola í fjarska
Dagur 5
Nú blés svolítið af hafi og gott var að fá smá kælingu. Hitinn var samt um 27°c.
Í dag var ákveðið að heimsækja Portovenere, sem er syðst á skaganum sem myndar Cinque Terre. Þangað eru ekki lestarsamgöngur. Á háanna tíma ganga ferjur á milli Portovenere og Monterrosso á cirka klukkutíma fresti. Þær koma við í öllum þorpunum, nema Corniglia, en þar er engin lending.
Við tókum því ferjuna. Gaman var að sjá göngleiðirnar og þorpin frá nýjum sjónarhóli. Siglingin er rúmlega klukkutíma löng. Við skoðuðum Portovenere sem er mjög falleg. Við stoppuðum þar í 3 tíma og tókum ferjuna svo aftur til baka til Riomaggiore. Þar fórum við í land og nutum þess að skoða þorpið sem er mjög fallegt. Tókum svo lestina yfir í Manarola og dvöldum þar lengi. Mér finnst Manarola fallegasti bærinn. Að ganga niður að höfn og njóta mannlífsins, horfa á unglingana stökkva í sjóinn af klettunum og skoða sérstakan bæ og sérstakar jarðmyndanir. Að lokum var lestin tekin heim til Monterrosso.
Dagar 6 og 7
Nú var komið að því að kveðja þennan dásemdarstað, með kollinn fullan af minningum og myndavélina fulla af stórkostlegum „póstkortamyndum“.
Við ókum til Pisa, en það tók um eina og hálfa klukkustund. Við fórum að sjálfsögðu að Skakka Turninum og gengum upp í hann. Það er mjög sérstakt og eitt af því sem ekki má sleppa. Héldum síðan áfram, hálftíma akstur til borgar sem heitir Lucca. Ítalir segja að hún sé eitt best varðveittasta leyndarmálið, með sína sérstöku virkisveggi, sem umlykja gömlu borgina og þröngu götur og sérstakt sporöskjulaga torg í miðjunni, Piazza Anfiteatro . Við notuðum daginn eftir til að skoða þessa fallegu borg og njóta þess sem hún hafði upp á að bjóða.
Manarola
Dagur 8
Heimferð , flogið frá Pisa, til Keflavíkur með millilendingu í London. Stórkostlegt ævintýri á enda runnið.
Þó svo við höfum valið að ganga bara tvo daga, eru gönguleiðirnar miklu fleiri og hægt að velja leiðir við allra hæfi. Tvær vinsælar leiðir eru lokaðar eftir jarðhrun, Á milli Corniglia og Manarola (opnar 2021) og Manarola og Riomaggiore (opnar 2019). Hægt er að ganga aðrar leiðir á milli þessara bæja, með því að fara upp í fjöllin. Þetta er dásamlegt svæði, enda þjóðgarður og á heimsminjaskrá.
Ég skora á ykkur ef þið hafið verið að hugsa um að fara, að láta verða af því. Hægt er að nálgast mikið af upplýsingum á http://www.cinqueterre.eu.com/en og https://www.incinqueterre.com/en/ .
Einnig er ykkur velkomið að hafa samband við mig ef ég get liðsinnt eitthvað.