13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Góðvinir HA afhentu heiðursverðlaun
Háskólahátíð - Brautskráning Háskólans á Akureyri (HA) fór fram í þremur athöfnum dagana 11. og 12. júní eins og fjallað erum á öðrum stað í blaðinu. Í 17. skipti afhentu Góðvinir Háskólans á Akureyri heiðursverðlaun til kandídata fyrir ötult starf í þágu háskólans og góðan námsárangur á meðan námstíma stóð. Góðvinir Háskólans á Akureyri eru samtök brautskráðra stúdenta og annarra velunnara háskólans. Markmið Góðvina er að auka tengsl háskólans við fyrrum stúdenta sína og aðra sem bera hag skólans fyrir brjósti. Einnig að styðja Góðvinir við uppbyggingu háskólans, fjárhagslega og á annan hátt. Skal þess gætt að félagsmenn hafi greiðan aðgang að starfsemi og þjónustu skólans og að tekjum samtakanna sé ráðstafað til uppbyggingar lærdóms og rannsókna við Háskólann á Akureyri.
Heiðursverðlaun Góðvina í ár hlutu:
- Heiða Björg Guðjónsdóttir, MT í kennarafræðum
- Þórey Erla Erlingsdóttir, BS í hjúkrunarfræði
- Daníel Gunnarsson, BA í félagsvísindum
- Steinunn Alda Gunnarsdóttir, BA í sálfræði
- Guðrún Vaka Þorvalsdóttir, BS í viðskiptafræði
„Það að hljóta viðurkenningu Góðavina Háskólans á Akureyri við brautskráningu hafði mikla þýðingu fyrir mig. Þeir hafa verið ófáir klukkutímarnir sem farið hafa í fundasetu og vinnu fyrir hönd stúdenta og þó að maður fari ekki í svona störf til þess að vinna verðlaun þá kom það óneitanlega við mann að fá viðurkenningu fyrir þessi störf. Ég er þakklátur Góðvinum HA fyrir þann heiður sem mér var sýndur á Háskólahátíð og ekki síður samnemendum og starfsfólki skólans fyrir frábær 3 ár og þau tækifæri sem ég hef fengið innan skólans til að læra og þroskast í námi og störfum fyrir stúdenta“ segir Daníel Gunnarsson. Steinunn Alda tekur undir orð Daníels.
„Það að hljóta heiðursverðlaun Góðavina Háskólans á Akureyri hafði mikla þýðingu fyrir mig. Störf mín fyrir háskólann og stúdenta hafa verið mér kær og er ég einstaklega þakklát fyrir öll þau tækifæri sem Háskólinn á Akureyri veitt mér,“ segir Steinunn sem meðal annars gegndi embætti formanns Stúdentafélags Háskólans á Akureyri starfsárið 2020-2021 við afar krefjandi aðstæður á tíma heimsfaraldurs. Heiða Björg hlaut var að ljúka nýrri námsleið í kennarafræðum, svo kallaðri MT leið þar sem stúdentar velja sér áherslusvið og námskeið í stað þess að skrifa meistaraverkefni.
Heiða hefur verið ötull talsmaður Háskólans á Akureyri og þá sérstaklega þegar kemur að kennaranámi. „Síðustu 5 ár hefur kennaranámið ekki bara undirbúið mig fyrir komandi starfsvettvang í kennslu heldur einnig átt þátt í að móta mig sem einstakling. Námið og samnemendur mínir hafa hjálpað mér að sjá hluti frá ólíkum sjónarhornum og hefur hugarfar mitt og andlegur þroski breyst til batnaðar. Víðsýni, umburðarlyndi og samvinna er mitt veganesti úr kennaranáminu,“ segir Heiða Björg.
Nánari upplýsingar um Góðvini og um skráningu má finna inn á heimasíðu Góðvina, www.godvinir.is