Góð staða á byggingamarkaði

„Staðan er góð, allar vinnandi hendur sem vilja og geta unnið hafa nóg að gera,“ segir Heimir Kristi…
„Staðan er góð, allar vinnandi hendur sem vilja og geta unnið hafa nóg að gera,“ segir Heimir Kristinsson varaformaður Byggiðnar Mynd MÞÞ

„Staðan er góð, allar vinnandi hendur sem vilja og geta unnið hafa nóg að gera,“ segir Heimir Kristinsson varaformaður Byggiðnar um stöðu mála í byggingariðnaði á Akureyri. Verktakar hafi næg verkefni, en vildu þó gjarnan sjá lengra fram í tímann en raunin er. Heimir gagnrýnir útboðsleið Akureyrarbæjar þegar kemur að lóðaúthlutun og segir þá aðferð ekki gera annað en hækka íbúðaverð. 

Heimir segir þó að þrátt fyrir að mikið sé umleikis nú séu blikur á lofti, verulega hafi hægt á sölu íbúða og verktakar gætu farið að hægja á framkvæmdum í kjölfarið, jafnvel stoppað verði ekkert að gert. „Það er auðvitað bagalegt þar sem vantar töluvert að íbúðum á markaðinn,“ segir hann.  „En við gætum alveg verið að sjá fram á samdrátt á markaði á næstunni.“

Heimir segir mikinn fjölda verkefna í gangi um þessar mundir en flestir verktakar séu að byggja íbúðir, m.a. í nýju Holtahverfi norður og þá hafi á dögunum fyrstu lóðum í Móahverfi, næsta nýja hverfi í bænum verð úthlutað. „Staðan var í eina tíð þannig að skortur var á lóðum frekar en hitt en ástandið hefur heldur skánaða nú undanfarin misseri, en verktakar vilja gjarnan sjá fram á verkefni nokkur ár fram í tímann.“

Akureyrarbær kyndir undir verðbólgu

Nýtt fyrirkomulag varðandi úthlutun lóða, þ.e. að verktakar bjóði í lóðir og sá sem hæst býður fær, segir Heimir ekki góða leið til við úthlutun lóða. „Mér finnst þetta geta gengið í einstaka tilfellum þegar um er að ræða mjög vinsæla lóð eða staðsetningu, en almennt finnst mér betur fara á því að verktakar fái lóðir á hér um bil kostnaðarverði. Það segir sig sjálft að aukinn kostur við kaup á lóðum fer bara út í verðlagið og íbúðirnar verða dýrari fyrir vikið. Nóg kosta þær þó þessi kostnaður bætist ekki við. Þetta leiðir til þess að íbúðarverð snarhækkar, svo sem dæmin sýna og kann ekki góðri lukku að stýra,“ segir Heimir. „Með þessu fyrirkomulagi er Akureyrarbær að kynda undir verðbólguna til lengri tíma og á því þurfum við síst að halda.“ 

Hann bætir við að þetta hafi gerst í Reykjavík þar sem svipað fyrirkomulag var við lýði og hafði í för með sér að verktakar spenntu bogann sumir hverjir of hátt til að ná í lóðir. „Verktakar sem treysta sér til að ná inn í íbúðarverðið þessum aukna kostnaði sem verður við lóðakaupin bjóða best í lóðirnar.“

Heimir segir að lóðaskortur og hátt verð á lóðum komi m.a. fram í því að aukin eftirspurn hefur undanfarin ár verið eftir lóðum í nágrannabyggðalögum, svo sem Hörgársveit og á Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit. „Mitt mat er að finna þurfi skynsamlega leið til að útdeila lóðum á viðunandi verði þannig að hátt lóðaverð skapi ekki spennu og hafi í för með sér hækkandi verð.“

 

Nýjast