Glæsileg opnunarhátíð Listar án landamæra á Norðurlandi

Pétur Jóhannsson tók lagið með gestum og hann var í miklu stuði.
Pétur Jóhannsson tók lagið með gestum og hann var í miklu stuði.

Opnunarhátíð Listar án landamæra á Norðurlandi fór fram í Hofi í dag, að viðstöddu fjölmenni. Boðið var upp á fjölbreytta dagskrá, með söng, hljóðfæraleik, leiklist og ljóðalestri. Það var Soffía Lárusdóttir framkvæmdastjóri búsetudeildar Akureyrarbæjar sem setti List án landamæra en hátíðin er einstök í sinni röð, þar sem fatlaðir og ófatlaðir mætast í list sinni. Nemendur í tónlistarhópi Fjölmenntar spiluðu og sungu undir stjórn Láru Sóleyjar Jóhannsdóttur og nýtt lag eftir tónskáldið Jón Hlöðver Áskelsson var frumflutt en er lagið tileinkað hátíðinni. Jón Hlöðver settist sjálfur við píanóið, en það hefur hann ekki gert opinberlega í langan tíma. Barnakór Giljaskóla undir stjórn Ástu Magnúsdóttur söng, auk þess sem fleiri hljóðfæraleikarar tóku þátt í flutningnum, m.a. Lára Sóley, Hjalti Jónsson og Emil Emilsson. Nemendur Fjölmenntar og Hæfingastöðvarinnar við Skógarlund opnuðu sýningu í Hofi á munum sem þau hafa unnið í vetur. Loks sýndi fjölmennur leikhópur Fjölmenntar leikritið um Mjallhvíti og dvergana, í leikstjórn Sögu Jónsdóttur.   Leikhópurinn stóð sig með miklum sóma, líkt og aðrir sem komu fram á opnunarhaíðinni í dag. Myndirnar tala sínu máli.

 

 

Nýjast