Kalt svæði

Ásta F. Flosadóttir átti lokaorðið í blaðinu s.l. fimmtudag
Ásta F. Flosadóttir átti lokaorðið í blaðinu s.l. fimmtudag

Við, sem ekki ólumst upp við gæði hitaveitunnar, deilum ýmsum svölum minningum og lífsreynslu sem aðrir skilja ekki. Heitt vatn var takmörkuð auðlind, magnið sem hitadúnkurinn innihélt kólnaði við notkun og tók nokkra klukkutíma að hitna aftur. Það þýddi ekkert fyrir fjölskylduna í Höfða að drolla í sturtunni og líkamsþvottur heimilismanna var skipulagður út í ystu æsar.

Þegar bæjarferð stóð fyrir dyrum fór mamma fyrst í sturtu og önnur dóttirin var svo skrúbbuð um leið og skilin eftir í sturtunni meðan pabbi og mamma höfðu skipti, hún kippti svo krakkanum út, þurrkaði og klæddi, meðan hin dóttirin fór í sturtuna með pabba. Þannig náðist að þrífa alla á rétt rúmum tveimur sturtum, með miklum flýti. Það var ekki í boði að vera með einhverja spéhræðslu og enginn möguleiki heldur að njóta baðferðarinnar í rólegheitum. Sturtuklefinn heldur þröngur, en fólkið plássfrekt og því oft töluverður fyrirgangur og stimpingar sérstaklega ef við systur vorum settar í sturtuna báðar í einu.

Íssturtur á aðfangadag

Á stærri heimilum var sjálfgefið að einhverjir fengu kalda sturtu og íssturtur á aðfangadag voru hlutskipti þeirra sem þurftu að sinna gegningum. Sundlaugin upp í Gljúfurárgili var sett þar niður skammt frá volgru, rúmlega 30° volgt vatn náðist þar, vatnið kólnaði niður undir 20° á leiðinni til laugar og var því hitað aðeins með olíukyndingu. Samt bara lítið, ekki mátti bruðla með svarta gullið. Stundum bilaði ketillinn en við skyldum samt í sundkennslu, tvisvar sinnum sama daginn, 20 mínútur í einu. Bekkjarsystur mínar, sem ekki höfðu þykkt náttúrulegt einangrunarlag, voru iðulega bláar í framan og skjálfandi þessar mínútur. Svo stóðum við allar undir einni sturtu, því spara þurfti vatnið. Hver og ein reyndi auðvitað að troðast undir bununa í von um yl.

Í búningsklefanum voru gluggar við loft og strákarnir lögðu mikið á sig við að teygja sig upp í gluggann og kíkja inn, flissandi og pískrandi, stelpunum til mikils ama.

,,Komið þið og sjáið bara!“. 

Hún var ábyggilega 13 eða 14 ára, eitthvað eldri en ég, röggsöm og ákveðin. Gerði sér lítið fyrir og strunsaði inn í búningsklefann, stillti sér upp á evuklæðunum með hendur á mjöðmum og argaði á strákakösina sem lá á glugganum: ,,komið þið og sjáið bara!“. Eins og við manninn mælt hurfu öll andlit og sáust ekki aftur, lúpulegir flúðu drengirnir í burtu. Hún hafði ekkert til að skammast sín fyrir en það höfðu þeir. Öllu vön enda af fjölmennu heimili og örugglega ekki mikið stærri hitakútur en heima hjá mér.

Eins og hetjan Lína langsokkur stóð hún þarna og gaf strákastóðinu fingurinn. Hún ávann sér mikla virðingu samnemenda sinna af báðum kynjum þennan dag.

Fyrsta tap feðraveldisins sem ég varð vitni að.

Nýjast