Fjárhagsáætlun Þingeyjarsveitar 2025 samþykkt

Við samþykkt fjárhagsáætlunar. Frá vinstri; Arnór Benónýsson, Úlla Árdal, Knútur Emil Jónasson, Marg…
Við samþykkt fjárhagsáætlunar. Frá vinstri; Arnór Benónýsson, Úlla Árdal, Knútur Emil Jónasson, Margrét Hólm Valsdóttir, Árni Pétur Hilmarsson, Gerður Sigtryggsdóttir, Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, Ragnhildur Hólm Sigurðardóttir, Sigfús Haraldur Bóasson, Halldór Þorlákur Sigurðsson og Eyþór Kári Ingólfsson. Mynd Þingeyjarsveit

Fjárhagsáætlun Þingeyjarsveitar fyrir árið 2025 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2026-2028 var lögð fram til síðari umræðu á sveitarstjórnarfundi þann 12. desember og samþykkt. Fjárhagsáætlunin er sett fram í samræmi við 62. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, fyrir A-hluta og samantekinn reikning fyrir A- og B-hluta. Fyrri umræða fór fram þann 28. nóvember.

Gerður Sigtryggsdóttir oddviti lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd meiri hlutans þegar fjárhagsáætlunin var samþykkt;

„Nú er senn að líða annað rekstrarár sameinaðs sveitarfélags. Þrátt fyrir ýmsar krefjandi ytri aðstæður svo sem hátt vaxta- og verðbólgustig hvílir rekstur sveitarfélagsins á traustum grunni. Fjölmargar áskoranir í rekstri fylgja því að veita þjónustu í svo víðfeðmu sveitarfélagi sem Þingeyjarsveit er.

Mikið hefur áunnist í þróun stjórnsýslunnar eftir sameiningu og mun það verkefni halda áfram og skila bættum rekstri á komandi árum. Heildarstefnumörkun sveitarfélagsins er að ljúka og á dagskrá fundarins í dag er lögð fram tillaga að stefnu Þingeyjarsveitar 2024-2030. Heildarúttekt hefur verið gerð á veiturekstri sveitarfélagsins með það að markmiði að kortleggja viðhalds- og nýframkvæmdir næstu ára. Eignasafn sveitarfélagsins er í skoðun m.t.t. þess hvaða eignir þjóna ekki rekstrinum og gætu farið í sölumeðferð. Nýtt stjórnsýsluhús var formlega tekið í notkun nýlega og bætir það starfsaðstöðu bæði starfsmanna og kjörinna fulltrúa auk þess sem þar er boðið upp á aðstöðu fyrir óstaðbundin störf.

Ný þjónustustefna sveitarfélagsins er tekin til seinni umræðu hér í dag. Það sama er að segja um nýja lögreglusamþykkt Þingeyjarsveitar en í báðum tilfellum er um lögbundin verkefni að ræða.

Úttekt á brunavörnum Þingeyjarsveitar var gerð á árinu og er hafin sú úrbótavinna sem þar var lögð til m.a hvað varðar húsnæðisþörf slökkviliðsins í Reykjahlíð. Í fjárhagsáætlun árið 2025 er gert ráð fyrir fjármagni í þarfagreiningu og frumhönnun á björgunarmiðstöð í Reykjahlíð.

Nýr samstarfssamningur var gerður við Mývatnsstofu ehf. þar sem áhersla er lögð á áframhaldandi öflugt kynningarstarf sem miðar að því að kynna Þingeyjarsveit sem eftirsóknarvert sveitarfélag til búsetu og atvinnuuppbyggingar. Sérstök áhersla verður lögð á fjölnýtingu einstakra orkuauðlinda sveitarfélagsins.

Nokkuð hefur áunnist í stafrænni vegferð sveitarfélagsins og ný heimasíða mun loksins líta dagsins ljós á næstu vikum. Þar er lögð áhersla á að veita íbúum sem best aðgengi að upplýsingum um þjónustu sveitarfélagsins. Áfram verður haldið í stafrænni vegferð á árinu 2025.

Tvær nýjar íbúðir bættust við á árinu á vegum sveitarfélagsins og eru þær staðsettar á Laugum. Aðrar tvær eru á lokastigi á Laugum en þær eru í eigu Bríetar. Áformað er að halda áfram byggingu nýrra íbúða og þegar er búið að auglýsa eftir byggingaraðilum á tveim íbúðum í Reykjahlíð. Jafnframt verða nokkrar af eldri íbúðum sveitarfélagsins auglýstar til sölu.

Áhersla sveitarstjórnar er og verður að verja grunnþjónustu sveitarfélagsins og styrkja hana. Sérstök áhersla er eftir sem áður á góða þjónustu við börn og ungmenni m.a. með gjaldfrjálsum skólamáltíðum bæði fyrir grunn- og leikskólabörn. Frístundastyrkur var hækkaður verulega á síðasta ári og mun hækka á ný á næsta ári“.

Fjárhagsáætlun var samþykkt með atkvæðum Gerðar, Knúts, Arnórs, Úllu, Ragnhildar og Árna Péturs. Eyþór, Haraldur og Halldór sátu hjá.

Nýjast