11.desember - 18.desember - Tbl 50
Íslandsþari fékk úthlutað lóð á Húsavík
Á fundi Sveitarstjórnar Norðurþings á dögunum var samþykkt tillaga skipulags- og framkvæmdaráðs um að úthluta fyrirtækinu Íslandsþara lóðinni að Búðarfjöru 1 á Húsavík til uppbyggingar húsnæðis til úrvinnslu stórþara. Áki Hauksson M lista og Ingibjörg Benediktsdóttir V- lista greiddu atkvæði á móti, en Benóný Valur Jakobsson S-lista og Jónas Þór Viðarsson V-lista sátu hjá.
Allt að 29 störf munu skapast
Soffía Gísladóttir B-lista benti á að lóðin væri vel staðsett fyrir hafnsækna starfsemi og myndi nýtast Íslandsþara vegna nálægðar við höfnina. Hún lagði áherslu á að starfsemin myndi skapa allt að 29 störf á svæðinu, sem væri mikilvægt fyrir samfélagið.
„Gert er ráð fyrir að allt að 29 störf skapist á svæðinu með vinnslu á þessum stórþara, um 19 störf á landi og 10 sjávartengd störf við söfnun stórþarans. Þetta er mjög mikilvægt fyrir samfélagið okkar og framtíðaruppbyggingu þess,“ sagði Soffía
Hefur áhyggjur af vertíðarstemningu
Benóný Valur lýsti yfir áhyggjum sínum vegna mögulegrar vertíðarstemningar og skorts á upplýsingum um starfsemi utan vertíðartíma. Hann óskaði eftir frekari útskýringum áður en hann gæti samþykkt málið.
„Ég var einu mjög hlynntur þessu verkefni, þá komu hér stórhuga menn og töluðu um 100 störf og þar af voru a.m.k. 30 hálauna vísindastörf. Það bendir til þess að hér verði um vertíðarstemningu að ræða frá apríl og fram í október. Það kemur ekkert fram í greinargerðinni sem fylgdi umsókninni hvað starfsmennirnir eru að gera frá október og fram í apríl. Það hugnast mér mjög illa, satt best að segja að við fáum farandverkamenn þessa mánuði þegar húsnæðismarkaðurinn í bænum er nú þegar mjög aðþrengdur. Ég þarf að fá betri útskýringar áður en ég samþykki málið,“ útskýrði Benóný.
Veltir fyrir sér staðsetningu
Áki benti á að Íslandsþari hefði áður sótt um lóð í Norðurfjöru við Slökkvistöð Húsavíkur og að staðsetningin í Suðurfjöru hefði þá ekki komið til greina. Hann óskaði eftir útskýringum á því hvers vegna staðsetningin væri nú í lagi.
„Ég set stórar spurningar við þetta og óska eftir útskýringum á því hvers vegna það er í lagi að fara byggja í Suðurfjörunni núna en ekki þá. Mér finnst þetta ekki trúverðugt, ég verð að segja það alveg eins og er. Ég átta mig heldur ekki alveg á því hvað þetta er, hvort þetta sé svona vertíðarstemning eins og Benóný var að tala um. Íslandsþari bauð okkur hérna fyrst að hér yrðu 100 störf með eftirvinnslu líka. Mér finnst þetta alveg með ólíkindum. Ég vil bara fá allt eða ekkert. Ef þetta á bara vera einhver vertíðarstemning þá líst mér ekkert á þetta,“ sagði Áki.
Verkefnið breyst vegna eigendaskipta
Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri útskýrði að verkefnið hefði breyst vegna eigendaskipta í fyrirtækinu og að nú væri verið að tala um beltaþurrkara í stað vacum þurrkunar. Hún lagði áherslu á að allar hugmyndir Íslandsþara féllu að deiliskipulaginu og að verkefnið myndi skapa ný atvinnutækifæri í Norðurþingi.
,,Búðarfjaran hentar mjög vel í þetta verkefni. Hún hefði örugglega hentað líka vel í fyrra verkefnið en þá sóttu þeir bara um í Norðurfjörunni. Allar hugmyndir Íslandsþara núna falla að deiliskipulaginu. Hvaða rök ætla menn þá að nota til að úthluta þeim ekki lóðinni?“ spurði Katrín og lagði áherslu á að taka vel í nýsköpunarfyrirtæki sem vildu hefja starfsemi á Húsavík.
Fagnar nýsköpun
„Þetta er nýsköpunarfyrirtæki. Þetta er í fyrsta sinn sem verið er að nota þessi mið við Íslandsstrendur í svona verkun. Það hefur víða verið farið í nýsköpun og það hefur farið misjafnlega af stað en kannski endað vel. Ef menn hefðu alltaf verið með svona varnarorð þá værum við kannski ekki í dag með Kerecis, við værum kannski ekki með Marel. Ég held að við séum með tækifæri þarna til að fá nýtt atvinnutækifæri inn í Norðurþing. Okkur veitir ekkert af að fjölga stöðunum undir atvinnulífið. Það er talað um að þegar þetta er komið af stað þá skapi þetta 29 störf fyrir Norðurþing að því gefnu að þetta gagni allt upp. Það er bara stórt fyrir okkar sveitarfélag,“ sagði Katrín.
Eiður Pétursson B-lista tók einnig jákvætt í umsóknina og benti á að nýsköpunarverkefni sem þetta myndu skapa störf og tekjur fyrir sveitarfélagið, hafnarsjóð og orkuveituna.