GG hvalaferðir sýknað af aðalkröfu Hafnarsjóðs Norðurþings

Höfuðstöðvar Gientle Giants á Húsavík. Mynd/epe
Höfuðstöðvar Gientle Giants á Húsavík. Mynd/epe

Hvalaskoðunarfyrirtækið Gentle Giants (GG), á Húsavík, hefur verið dæmt í Héraðsdómi Norðurlands eystra til að greiða Hafnasjóði Norðurþings 5,4 milljónir króna vegna vangreiddra farþegagjalda. Niðurstaða dómsins var kynnt á fundi skipulags og framkvæmdaráðs Norðurþings í vikunni.

Hafnarsjóður Norðurþings stefndi Gentle Giants í lok árs 2019 og krafðist þess aðallega að fyrirtækið yrði dæmt til að greiða Hafnarsjóði kr. 64.337.190 krónur að frádregnum innborgunum að fjárhæð kr. 57.961.235, auk dráttarvaxta.  Kröfunni var fylgt eftir með höfðun þessa máls. Krafan byggir á ógreiddum reikningum vegna farþegagjalda árin 2008, 2010 og 2015.  Var fyrirtækið sýknað af aðalkröfunni á grundvelli fyrningar.

Til vara krafðist Hafnarsjóður þess að GG greiði Hafnarsjóði kr. 5.416.320 auk dráttarvaxta frá 4. nóvember 2016 til greiðsludags, vegna ógreiddra reikninga fyrir árið 2015.

Dóminn má lesa hér

Hafnarrekstur á Húsavík hefur þá sérstöðu að langmestur hluti starfseminnar er starfsemi hvalaskoðunarbáta, en GG hefur verið annar tveggja helstu rekstraraðila á því sviði um langt skeið. Hafnarsjóður kveður gjaldtöku hafnarinnar að mestu lúta reglum um þjónustugjöld, sem feli í sér að ekki sé krafist hærri greiðslna frá viðskiptavinum en nægi til að standa undir rekstrinum. Hafnasjóður Norðurþings hefur verið rekinn með viðvarandi tapi frá árinu 2007 til 2015 og í raun enn í dag að teknu tilliti vaxta, sem eðlilegt sé að gera ráð fyrir að leggist á kröfu sveitarfélagsins á Hafnarsjóðs, vegna raunvaxtakostnaðar sveitarfélagsins. Án vaxtareiknings á kröfu sveitarfélagsins hafi afkoman einungis verið jákvæð árin 2016 og 2017. Af þessu sé ljóst, að almennt fullnýti Hafnarsjóður ekki gjaldskrárheimildir sínar og þeir sem þess njóti séu notendur hafnarmannvirkjanna.

 Ágreiningur um lögmæti farþegagjalda

Ágreiningur aðila í málinu snýst um farþegagjöld, en GG mótmælir því að þau eigi lögmæta stoð í gjaldskrá stefnanda. Ágreininginn má rekja aftur til ársins 2008 en þá hófst greiðsludráttur GG á mánaðarlegum reikningum samkvæmt Hafnarsjóði. Um er að ræða reikninga frá því í september 2008 þar til í nóvember 2019.

Reikningar Hafnarsjóðs á hendur Gentle Giants á tímabilinu 2008 til 2019 vegna farþegagjalda nema rétt tæpum 48 milljónum króna að teknu tilliti til kreditreikninga. Á tímabilinu 2008 til 2018 voru farþegagjöldin rúmar 40 milljónir króna.

Í dómnum segir að farþegagjöld hafi verið lögð á og innheimt í samræmi við gjaldskrár Hafnasjóðs árin 2008 til 2011. Árið 2012 hafi Hafnasjóður svo gert samkomulag um greiðslu farþegagjalda við fyrirtækið Norðursiglingu en ekki hafi orðið af sambærilegu samkomulagi við Gentle Giants. Þrátt fyrir það hafi fyrirtækið verið krafið um farþegagjöld í samræmi við það sem Norðursigling var krafin um. 

Samkomulagið hafi gilt í eitt ár en árið 2014 hafi farþegagjöld áfram verið innheimt á grundvelli samkomulagsins. Þá hafi árið 2015 gjaldskrár fyrir hafnir Norðurþings verið teknar í gildi þar sem mælt var fyrir um álagningu og innheimtu farþegagjaldanna. Þrátt fyrir það hafi Norðurþing ekki innheimt farþegagjöld  það árið. Í lok sumars 2016 hafi það svo verið tilkynnt að upptaka farþegagjalda á höfnum Norðurþings myndi taka til ársins 2015 og 2016 og framvegis eftir það nema annað yrði sérstaklega ákveðið. 

Var þá óskað eftir upplýsingum um farþegafjölda Gentle Giants vegna áranna 2015 og 2016 og voru reikningar fyrir árin tvö gefnir út þegar þær upplýsingar lágu fyrir. Gentle Giants hafi greitt reikninginn vegna ársins 2016, sem nam um 6,5 milljónum króna, en taldi sig ekki þurfa að greiða reikning vegna ársins 2015.

Elstu kröfurnar fyrndar

Dómurinn féllst á það með GG  að málið lúti í raun að kröfum Hafnarsjóðs að baki ógreiddum reikningum GG vegna áranna 2008, 2010 og 2015. „Óumdeilt er að kröfur vegna áranna 2008 og 2010 voru fyrndar þegar mál þetta var höfðað, sbr. 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Stefndi verður því sýknaður af aðalkröfu stefnanda,“ segir í niðurstöðu dómsins.

Varakrafa Hafnarsjóð er reist á reikningi vegna farþegagjalda fyrir árið 2015, sem dagsettur er 4. nóvember 2016. Deila aðilar m.a. um hvort krafan hafi verið fyrnd er málið var höfðað 29. desember 2019, en GG byggir á því að krafan hafi verið orðin gjaldkræf í skilningi fyrningarlaga þegar á árinu 2015. Hafnarsjóður taldi aftur á móti að fullnægjandi upplýsingar hafi ekki legið fyrir til álagningar gjaldanna fyrr en síðla árs 2016. Á því beri stefndi ábyrgð vegna dráttar á afhendingu upplýsinganna. Féllst dómurinn á málatilbúnað Hafnarsjóðs og dæmdi GG til að greiða Hafnarsjóði Norðurþings 5,4 milljónir króna auk dráttarvaxta en felldi niður málskostnað.

Fréttin var uppfærð: Í upphaflegu fréttinni láðist að geta þess að innborganir að fjárhæð kr. 57.961.235 eru dregnar frá í aðalkröfu Hafnarsjóðs. 

Smellið gif

 

Nýjast