Garðvík kærir Norðurþing fyrir að semja við Bæjarprýði
Skipulags og framkvæmdaráð Norðurþings lagði fram til kynningar á fundi sínum í gær bréf frá Kærunefnd Útboðsmála vegna kæru Garðvíkur ehf. Kæran byggist á ákvörðun sveitarfélagsins um að ganga til samninga við fyrirtækið Bæjarprýði ehf. um viðgerðir á hellulögnum, hellulögn og kantsteinslögn neðan Naustsins, við Ásgarðsveg og viðgerðir á kantsteinum sem og gerð niðurtekta víðar um bæinn.
Í kæru Garðvíkur er þess krafist að samningarnir sem gerðir voru við Bæjarprýði verði gerðir óvirkir og framkvæmdir stöðvaðar. Auk þess er þess krafist að frekari samningsgerð við Bæjarprýði verði stöðvuð og Norðurþingi gert að bjóða verk út í örútboði meðal aðila að Rammasamningi Ríkiskaupa sem og önnur verk á Skrúðgarðyrkjusviði. Þá fer Garðvík fram á það að Norðurþing greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi. Kæruna byggir kærandi á því að Garðvík sé skrúðgarðyrkjufyrirtæki og einn af seljendum í Rammasamningi RK-17.09. Telur fyrirtækið að sveitarfélaginu hafi ekki verið heimilt að ganga til samninga við Bæjarprýði sem er ekki aðili að Rammasamningnum án þess að hafa leitað fyrst til aðila samningsins.
Bréf Kærunefndar útboðsmála er dagsett 13. ágúst sl. en þá var framkvæmdunum lokið.
Benóný Valur Jakobsson, formaður skipulags- og framkvæmdaráðs segir í samtali við Vikublaðið að skriflegum leiðbeiningum frá Ríkiskaupum hafi verið fylgt þegar gengið var til samninga við Bæjarprýði ehf. Kæran verður tekin fyrir á morgun fimmtudag hjá Kærunefnd útboðsmála.