Gallsteinar / gullsteinar, það munar bara einum staf

„Hún flaug hratt stundin í Samkomuhúsinu þetta síðdegi í félagsskap afa Gissa og hans fólks og ég vi…
„Hún flaug hratt stundin í Samkomuhúsinu þetta síðdegi í félagsskap afa Gissa og hans fólks og ég vil þakka aðstandendum sýningarinnar fyrir að bjóða heim í ævintýrasöngleik fyrir börn sem hrífur alla með sem ævintýrunum unna, sama á hvaða aldri þeir eru,“ segir m.a. í leikdómi.

Þessar vikurnar standa yfir sýningar á söngleiknum Gallsteinar afa Gissa hjá Leikfélagi Akureyrar. Þetta er annar söngleikurinn sem LA setur upp á leikárinu, kemur siglandi í kjölfar Kabaretts sem er margleikinn og oftsunginn. Hér er aftur á móti á ferðinni splunkunýr fjölskyldusöngleikur sem þau Kristín Helga Gunnarsdóttir og Karl Ágúst Úlfsson eiga veg og vanda að. Tónlistina semur Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson og Ágústa Skúladóttir leikstýrir.

Í söngleiknum segir frá þeim systkinum Grímu sem leikin er til skiptis af Steingerði Snorradóttur og Þórgunni Unu Jónsdóttur og yngri bróður hennar Torfa sem þeir Daníel Freyr Stefánsson og Örn Heiðar Lárusson sjá um að túlka. Þau búa við þann húskross sem mun vera býsna algengur í nútímanum;  nefnilega foreldra sem hafa alltof mikið á sinni könnu og sinna börnunum ýmist ekki neitt, eða þá í boðhætti eins og segir í textanum „Fariði! Farið í bað! Farið að bursta! Eruð þið löt? Farið í föt! Reynið að hlusta o.s.frv.“ Þessi skipanaglaði herforingi er mamma barnanna, leikin af Maríu Pálsdóttur sem hefur lítinn tíma og enn minni þolinmæði fyrir afkvæmi sín nema frumburðinn Úlf, eldri bróður barnanna en sá er mjög illa haldinn af unglingaveiki og andstyggð á yngri systkinum sínum. Jóhann Axel Ingólfsson leikur Úlf og annan sjúkling sem haldinn er einhverjum öðrum kvilla en unglingaveikinni, en ekki síður erfiðum. Faðir barnanna eða „pabbinn“, sem Benedikt Karl Gröndal leikur hefur andlitið tæplega uppúr skjalabunkum til að næra sig, hvað þá að hann veiti börnum sínum athygli. Svo ekki er nú heimilislífið gæfulegt, blanda af skipunum, stríðni og afskiptaleysi.

Systkinin eru skiljanlega fremur ósátt með sitt nánasta fólk, nema karlinn hann afa Gissa, sem hefur fengið gallsteina og dvelur á sjúkrahúsi meðan hann jafnar sig og er þar hrókur alls fagnaðar. Afi Gissi segir sögur að hætti afans á plötunni um Hrekkjusvín og heillar alla nærstadda upp úr skónum með því að vera alltaf „jafn helvíti hress“, og sögurnar hans eru „gagnlegri en meðalasull.“ Gallsteinarnir sem voru fjarlægðir úr Gissa reynast vera gulls ígildi og þar að auki töfrasteinar sem geta látið óskir rætast. Óskasteinabransinn er reyndar dálítið hættulegur eins og fjölmargir hafa fengið að reyna í ævintýrum í gegnum tíðina og það hefur greinilega lítið breyst.

Óskir barnanna fela í sér ómælt magn af gosdrykkjum og sælgæti og yfirdrifinn fjölda gæludýra. En mest er um vert að foreldrarnir hafa allt í einu nógan tíma og mikinn áhuga á því að krakkarnir séu ekki að angra þá með skyldum eins og skólagöngu og tannhirðu. Mamma herforingi breytist í kærulausan hippa, pabbinn verður sá hressasti sem sögur fara af og Úlfur hverfur og er öllum gleymdur nema systkinunum, skólayfirvöldum og sennilega þjóðskránni.

En það er „vissara að fara varlega, vissara að óska sparlega“ því óskirnar eiga það til að rætast og það sem hljómaði svo spennandi og frábært getur snúist upp í andhverfu sína og það er einmitt boðskapur og lærdómur þessa bráðskemmtilega söngleiks. Er endilega óskandi að geta óskað sér og að óskirnar rætist?

Krakkarnir léku mjög vel og sungu frábærlega á þeirri sýningu sem ég sá. Ég er reyndar ekki viss um hvort parið var þá á sviðinu. Varkári Torfi og fljótfæra Gríma skiluðu sér alla leið út í sal svo áhugi gesta á málsháttasmíði hefur örugglega aukist, a.m.k. á meðan á sýningunni stóð. Foreldrarnir skiptu gjörsamlega um ham og skiluðu þeim skiptum afbragðsvel. Maríu man ég eftir sem fimleikakonu í hlutverki kerlingarinnar í Gullna hliðinu og herforingjamamman sýndi af sér mikla fimi en varð síðan afslöppuð eins og ofsoðinn aspargus eftir hamskiptin. Pabbinn fór þveröfuga braut. Úr stirðum og afundnum endurskoðanda í holdgerving hressileikans með alla bókstafi ofvirkninnar á sínu valdi. Hress, hress, hress.

„Öll“ hlutverkin léku þau María og Benedikt af stakri prýði. Karl Ágúst var afskaplega sannfærandi sem lífsglaði og lífsreyndi afinn; söngvinn og glaðbeittur. Að vísu fannst mér atriðið þar sem hann kenndi og leiddi bumbuslátt, missa marks og ekki hafa neina þýðingu fyrir framvindu verksins. Hugsanlega var það sett inn til að skapa gagnvirkni við salinn, eins og oft er gert í barnaleikritum. Karl Ágúst á líka sinn hlut í handritinu. Söngtextarnir eru bráðsmellnir og grípandi og tíu ára ráðgjafi minn í barnaleikritaupplifun sagði að ekkert mál hefði verið að skilja hvert orð og ber það höfundi og flytjendum gott vitni. Jóhann Axel sem var hvorttveggja unglingaskrímsli og sjúklingur togaði óspart í brosböndin og kitlaði hláturtaugarnar ómælt. Hann lét líka til sín taka sem yfirmaður pabbans, lögregluþjónn og skólastjóri.

Margrét Sverrisdóttir skilaði hlutverki Boggu blákollu sannfærandi en Bogga þessi hefur minni jarðtengingu en við flest og skynjar því ýmislegt og skilur sem okkur hinum er hulið.  Birna Pétursdóttir leikur hvorki meira né minna en sex hlutverk og skilaði þeim öllum frábærlega vel en hún bregður sér í líki Jónínu nágranna, Svanlaugar Schöth sjúklings, ónefndrar geimveru, Elsu kennara Úlfs, Báru frá barnaverndarnefnd og pizzusendils og tókst að skapa hverri persónu sitt andlit, framkomu og fas. Eins og vera ber í ævintýrum eru persónurnar málaðar og leiknar í sterkum litum og öll sungu þau af stakri prýði.

Leikmyndin undirstrikaði í einfaldleika sínum ævintýrið með skökkum hurðum og skrýtnum formum og á þessu litla sviði í Samkomuhúsinu var nóg pláss fyrir siglingar á pollinum með svolítilli ágjöf og stefnumót við framandi konur á ókenndum stöðum og allt þar á milli.

Tónlist Þorvaldar Bjarna var smellin og grípandi. Hún var að verulegu leyti leikinn af bandi, en stöðugt voru þrír hljóðfæraleikarar nálægir og bættu lífi í tónlistina. Það voru þeir Jaan Alavere, Philip Doyle og Kristján Edelstein.

Hún flaug hratt stundin í Samkomuhúsinu þetta síðdegi í félagsskap afa Gissa og hans fólks og ég vil þakka aðstandendum sýningarinnar fyrir að bjóða heim í ævintýrasöngleik fyrir börn sem hrífur alla með sem ævintýrunum unna, sama á hvaða aldri þeir eru.

-Hólmkell Hreinsson

Nýjast