Gagnrýnir bæjarstjórn fyrir samráðsleysi

Ragnar Sverrisson kaupmaður á Akureyri gagnrýnir bæjarstjórn Akureyrar fyrir að „samþykkja einhliða og án samráðs við bæjarbúa afdrifaríkar breytingar á skipulagi miðbæjarins frá árinu 2014,“ eins og hann kemst sjálfur að orði í aðsendri grein í Vikublaðinu. Greinina má lesa HÉR.

Raggi Sverris

Ragnar segir m.a. að fyrirtæki, félög og einstaklingar á Akureyri hafi leitað til Úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála og kært umræddar breytingar. Hann vill einnig meina að Skipulagsstofnun hafi brugðist hlutverki sínu þegar stofnunin samþykkti breytingarnar án efnislegra athugasemda.

„Nú er beðið eftir úrskurði nefndarinnar og þá gæti tvennt gerst.  Beint verði til bæjarstjórnar að taka upp þráðinn við bæjarbúa með eðlilegum samtölum við þá og afgreiða málið upp á nýtt eftir það. Hin niðurstaðan gæti orðið að þessi dæmalausu vinnubrögð bæjarstjórnar verði samþykkt eins og Skipulagsstofnun lét sér sæma að gera. Ef svo ótrúlega færi er ljóst að þar með yrði gefið grænt ljós á að bæjarstjórn Akureyrar geti lokað sig inni og þurfi ekki að hafa nokkurt samráð við almenning um málefni sem skiptir íbúa miklu eins og raunin er í þessu tilviki,“ skrifar Ragnar og furðar sig á því að bæjarbúar þurfi nú að snúa sér til nefndar „fyrir sunnan“ til að komast að eigin bæjarfulltrúum.

„Þeir hafa lokað sig af innan bergmálslausra veggja Ráðhússins og ansa bæjarbúum ekki nema kannski innan þessarar sömu múra og þá allt í leyni en alls ekki fyrir opnum tjöldum.  Getur staðan orðið öllu snautlegri?“ skrifar Ragnar.  

 Smellið gif

Nýjast