Gæslan vill að gjöld verði felld niður

Týr við bryggju á Akureyri/mynd karl eskil
Týr við bryggju á Akureyri/mynd karl eskil

Landhelgisgæslan hefur óskað eftir því að Hafnasamlag Norðurlands felli niður lestar- og bryggjugjöld vegna legu varðskipsins Týs á Akureyri,  en skipið verður gert út frá Akureyri í vetur. Samkvæmt gjaldskrá samlagsins eru lestargjöld slíks skips 16 þúsund krónur á mánuði og bryggjugjöldin um 250 þúsund krónur á mánuði.

„Dæmi eru um að hafnir bjóði Landhelgisgæslunni að fella niður hafnargjöld þó svo að þjónustugjöld hafa verið greidd, s.s. fyrir vatn, rafmagn og aðra þjónustu sem viðkomandi höfn veitir varðskipunum. Akureyrarhöfn er ein þessara hafna en það hefur verið byggt á heiðursmannasamkomulagi og hingað til einungis átt við um skamman tíma í senn,“ segir í svari Landhelgisgæslunnar við fyrirspurn Vikudags.

„Varðskipin hafa hingað til aðstoðað byggðarlög og sveitarfélög þegar á þarf að halda og gjalds er ekki krafist í staðinn,“ segir jafnframt í svari Landhelgisgæslunnar til Vikudags.

karleskil@vikudagur.is

Nýjast