Gæsahúð um allan heim vegna Húsavíkur

Stúlknakórinn húsvíski ásamt Molly Sandén á tökustað fyrir sléttri viku. Mynd: Berglind Ragnarsdótti…
Stúlknakórinn húsvíski ásamt Molly Sandén á tökustað fyrir sléttri viku. Mynd: Berglind Ragnarsdóttir.

Húsavík tók sig einstaklega vel út á sjónvarpsskjám tuga milljóna fólks um allan heim rétt í þessu. Flutningur lagsins Húsavík – My Hometown úr Netflixmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga var opnunaratriðið á Óskarsverðlaunahátíðinni sem hófst nú um 22:35. Lagið er tilnefnt til Óskarsverðlauna.

SJÁ EINNIG: „VIÐ VINNUM ÞETTA“

Myndbandið var tekið upp á Húsavík fyrir um viku síðan eins og frægt er orðið. Ástæða þess er sú að Molly Sandén fékk ekki tímabundið atvinnuleyfi og gat því ekki flutt lagið í Hollywood. Lagahöfundar lagsins tóku strax ákvörðun um að myndbandið yrði tekið upp á Húsavík og var framleiðslu fyrirtækið True North fengið til að annast upptökur í samstarfi við Netflix og Örlyg Hnefil Örlygsson.

Glöggir áhorfendur hafa eflaust tekið eftir því að Húsavíkingar voru í miklum meirihluta í opnunaratriðinu. Stúlknakór 5. Bekkjar Borgarhólsskóla á Húsavík sungu með Molly og húsvískir tónlistarmenn- og konur léku undir.

Vikublaðið fylgist með gangi mála í kvöld en Húsvíkingar bíða mjög spenntir eftir því hvort Óskarinn komi „heim“ til Húsavíkur. Nú þegar er búið að gera rauða dregilinn klárann á aðalgötu bæjarins sem hefur verið lokað að þessu tilefni. Gert er ráð fyrir að laust eftir miðnættið komi í ljós hvort Húsavík hefur sigrað kosninguna um besta frumsamda lagið og hljóti Óskarsverðlaunin eftirsóttu.

Óskarinn til Húsavíkur 2021

Nýjast