Fyrsta skóflustunga tekin að nýju Holtahverfi

Þórhallur Jónsson, formaður skipulagsráðs, Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar og Guðmun…
Þórhallur Jónsson, formaður skipulagsráðs, Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar og Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs tóku í dag fyrstu skóflustungurnar að nýja hverfinu við væntanlegt Þursaholt þar sem framkvæmdir hefjast.

Í dag var tekin fyrsta skóflustunga að Holtahverfi austan Krossanesbrautar á Akureyri. Í heildina er gert ráð fyrir um 300 íbúðum á svæðinu, en framkvæmdir hefjast nú við fyrri áfanga í gatnagerð og lagnavinnu.

Akureyrarbær ásamt Norðurorku, Mílu og Tengi buðu út verkið í október sl. og var samið við lægstbjóðanda, Nesbræður ehf., fyrir um 315 milljónir króna. Í verkinu felast einkum jarðvegsskipti vegna gatna, gangstétta og stíga, lagnavinna, gerð útivistarstíga og jarðvegsskipti fyrir leiksvæði og áningarstaði.

Verkinu er skipt í tvo hluta og er áætlað að fyrri verði lokið í byrjun maí og seinni um miðjan október nk. Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti 16. febrúar 2021 nýtt deiliskipulag sem felur í sér blandaða íbúðabyggð fjölbýlishúsa, raðhúsa, parhúsa og einbýlishúsa norðaustan við Krossanesbraut. Skipulagið hefur einnig í för með sér bætt umferðarskipulag, nýja stíga og útivistarsvæði.

Ungmennaráð bæjarins valdi nöfn á götur hverfisins; Álfaholt, Hulduholt, Dvergaholt og Þursaholt. Fyrstu byggingarlóðum í hverfinu var nýlega úthlutað og var mikill áhugi og umframeftirspurn bæði frá einstaklingum og lögaðilum. Í fyrri áfanga voru 22 lóðir auglýstar þar sem er gert ráð fyrir að lágmarki 140 íbúðum og er reiknað með að flestar verði byggingarhæfar í vor og aðrar næsta haust. Til viðbótar var búið að veita Búfesti, í samvinnu við félag eldri borgara á Akureyri, vilyrði fyrir lóð fyrir allt að 140 íbúðir og er gert ráð fyrir að framkvæmdir við a.m.k. 40 íbúðir hefjist strax á þessu ári. Í heildina er gert ráð fyrir um 300 íbúðum á 30 lóðum.

Helstu einkenni svæðisins eru miklar klappir sem byggt verður í kringum, frábært útsýni til allra átta, nálægð við strandlengju og lifandi smábátahöfn. Við mótun skipulags hefur meðal annars verið lögð áhersla á sjálfbærni, lýðheilsu og umhverfisvænar samgöngur. Vistgötur verða óvenjumargar og er horft til þess að stuðla að góðu umhverfi fyrir hjólandi og gangandi, til dæmis með því að koma fyrir gróðurbeðum og trjám í götunum.

Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar, Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs og Þórhallur Jónsson, formaður skipulagsráðs, tóku í dag fyrstu skóflustungurnar að nýja hverfinu við væntanlegt Þursaholt þar sem framkvæmdir hefjast. Skóflustungurnar marka upphaf mikillar íbúðauppbyggingar í Þorpinu, norðan Glerár, enda er einnig unnið að skipulagi fyrir nýtt Móahverfi vestan Borgarbrautar þar sem gert er ráð fyrir hátt í þúsund nýjum íbúðum á allra næstu árum. Mikil uppbygging er í sveitarfélaginu á vegum einstaklinga, fyrirtækja og opinberra aðila, auk þess sem íbúum fjölgar hraðar en oft áður eða um 416 (2,2%) á árinu 2021. Af þessu leiðir mikill og vaxandi áhugi á byggingarlóðum og fasteignum sem Akureyrarbær leggur áherslu á að bregðast við á jákvæðan og markvissan hátt

Nýjast