Fyrsta sinn sem smit hefur áhrif á starfsemi hjúkrunarheimila Heilsuverndar

Þetta er í fyrsta sinn síðan faraldurinn hófst sem smit hefur áhrif á starfsemi hjúkrunarheimila Hei…
Þetta er í fyrsta sinn síðan faraldurinn hófst sem smit hefur áhrif á starfsemi hjúkrunarheimila Heilsuverndar og hingað til hefur enginn íbúi smitast hvorki á Hlíð né Lögmannshlíð. Mynd á vefsíðu Hlíðar.

Íbúar á einu heimili Heilsuverndar hjúkrunarheimila á Hlíð eru nú komnir í sóttkví eða smitgát ásamt nokkrum starfsmönnum vegna smits sem greindist hjá einum starfsmanni seinni partinn í gær, föstudag. Um er að ræða Furu- og Víðihlíð og verður lokað fyrir allar heimsóknir á það heimili til og með 4. október en þá lýkur sóttkví að því gefnu að enginn greinist jákvæður í sýnatöku þann dag.

Viðbragðsáætlun var virkjuð í gærkvöldi og fyrirmælum rakningarteymis fylgt í hvívetna. Þetta er í fyrsta sinn síðan faraldurinn hófst sem smit hefur áhrif á starfsemi hjúkrunarheimila Heilsuverndar og hingað til hefur enginn íbúi smitast hvorki á Hlíð né Lögmannshlíð.

Búið er að upplýsa alla íbúa og verið er að hafa samband við aðstandendur þeirra.

Lífið gengur sinn vanagang á öðrum deildum

Aðgerðir á Víði- og Furuhlíð hafa ekki áhrif á starfsemi annarra eininga Heilsuverndar hjúkrunarheimila þar sem lífið gengur sinn vanagang. Þar eru heimsóknir leyfðar en vegna fjölgunar smita undanfarna daga á svæðinu þá beinum við þeim tilmælum til aðstandenda að þeir takmarki heimsóknir.

Aukning smita er aðallega meðal óbólusettra barna og ungmenna og því óæskilegt að sá hópur komi í heimsókn að sinni segir á vefsíðu Heilsuverndar hjúkrunarheimila.

Börn langstærsti hluti smitaðra

Alls eru 54 kórónuveirusmit í umdæmi lögreglunnar á Akureyri, langstærsti hópurinn er börn, 31 talsins, 12 ára og yngri. Rúmlega 500 manns á svæðinu eru í sóttkví.

Ekki er vitað um uppruna smitanna en ljóst segir lögregla ð þau eiga tengingar inn í marga hópa í samfélaginu, ýmist félagsstarf, íþróttir eða skóla. Biður lögregla menn um að  fara varlega og gæta að smitvörnum. Þá hvetur hún forráðamenn íþrótta og æskulýðsfélaga til að slá æfingum og viðburðum á frest á meðan þetta gengur yfir.

 

 

Nýjast