Fyrirhuguðu laxeldi á Raufarhöfn harðlega mótmælt

Raufarhöfn. Mynd úr safni
Raufarhöfn. Mynd úr safni

Nýlega bárust fréttir af fyrirhuguðum fiskeldisáforum Bjargar Capital á Raufarhöfn. Eldið færi fram bæði í sjó og á landi og er stefnt að því að ala þar 10.000 tonn af laxi.  

Alls 34 náttúruverndar- og veiðifélög hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem skorað er á  sveitarstjórn og byggðaráð Norðurþings að falla frá öllum sjókvíaeldisáformum við Raufarhöfn og beita sér ekki fyrir því að friðunarsvæðum verði breytt.

Undirrituð félög skora einnig á matvælaráðherra að festa í lög ákvæði um hvar bannað er að stunda sjókvíaeldi og jafnframt stækka það svæði svo að Eyjafjörður og Öxarfjörður verði friðunarsvæði. Yfirlýsingin var send á sveitarstjórn og byggðaráð Norðurþings auk Matvælaráðherra í dag.

Í yfirlýsingunni kemur fram að félögin hafi miklar áhyggjur af þessum áformum og leggjast eindregið gegn þeim.

„Árið 2004 setti þáverandi landbúnaðarráðherra, Guðni Ágústsson skorður á hvar stunda mætti sjókvíaeldi. Þetta var gert til að vernda villta laxastofna. Friðunarsvæði, þar sem eldi laxfiska í sjókvíum er óheimilt er í formi auglýsingar og því ekki fest í lög,“ segir í yfirlýsingunni.

Friðunarsvæðin má sjá hér fyrir neðan á mynd 1.

Veiði

Áform Bjargar Capital á Raufarhöfn eru innan friðunarsvæðis og gera áformin ráð fyrir því að eldi verði stundað í nálægð við mikinn fjölda laxveiðiáa.

Þar má helst nefna Deildará, Ormarsá, Laxá í Aðaldal, Skjálfandafljót, Svalbarðsá, Sandá, Hölkná, Hafralónsá, Miðfjarðará, Bakkaá, Selá, Vestudalsá, Hofsá, Sunnudalsá og Jöklu.

„Þessi listi er ekki tæmandi en gefur góða mynd af því hversu margar ár skaðast ef þessi áform ganga eftir. Allar þessar ár eru í innan við 150km. fjarlægð frá staðsetningu eldisins. Villtur laxastofn í Deildará og Ormarsá væri dauðadæmdur ef þessi áform gengu eftir, en eldið myndi fara fram við ósa þeirra. Áform Bjargar Capital ganga gegn öllum vísindalegum ráðlegginum er snúa að áhrifum sjókvíaeldis á villta laxastofna og ef þessi áform yrðu heimiluð væri það ekkert annað en aðför að íslenskri náttúru og þeim fjölmörgu fjölskyldum sem hafa lifibrauð af hlunnindum laxveiðiáa.

Þau hlunnindi sem eru fólgin í lax- og silungsveiðum á Íslandi eru gríðarlega mikilvæg fyrir dreifðar byggðir landsins. Á norður- og austurlandi eru 1.779 lögbýli sem treysta á tekjur af lax- og silungsveiðum. Í áratugi hefur Ísland byggt upp orðspor sitt sem eitt af síðustu ósnortnu áfangastöðunum þar sem veiði er ennþá góð og mannanna verk hafa ekki ennþá eyðilagt náttúruperlur landsins.

Innlendir og erlendir veiðimenn sækja í þessi gæði og er sú aðsókn ein af grundvallar tekjulindum í dreifðum byggðum landsins. Sjókvíaeldi á þessum slóðum myndi þýða það að verðmæti ánna myndi minnka, ásókn minnka og ímynd laskast.

Einnig ber að nefna að sjókvíaeldi hefur neikvæð áhrif á annað lífríki og náttúru á svæðinu. Eiturefnanotkun í sjókvíaeldi hefur neikvæð áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika á svæðinu. Uppsöfnun úrgangs hefur neikvæð áhrif á botnlíf í hafinu eins og nýlegt myndefni frá Dýrafirði sýnir.

Síðast en ekki síst, hefur sú mikla laxalús sem fylgir sjókvíaeldi mjög neikvæð áhrif á sjógönguseiði villtra fiska.

Undirrituð félög skora á Sveitastjórn Norðurþings að falla frá öllum sjókvíaeldisáformum á Raufarhöfn og beita sér ekki fyrir því að friðunarsvæðum verði breytt. Á þennan hátt myndi Sveitastjórn Norðurþings standa með nærumhverfi sínu og dreifðum byggðum landsins.

Sjókvíaeldi á Raufarhöfn myndi gengisfella allar laxveiðiár á norðurlandi, norð-austurlandi og austurlandi. Þar fyrir utan myndi það skapa gríðarlega áhættu fyrir villta laxfiskastofna á stóru svæði sem og annað lífríki.

Undirrituð félög eru ekki á móti atvinnuuppbyggingu á Raufarhöfn. Það er hinsvegar ekki réttlætanlegt að stökkva á loforð um mengandi stóriðnað, taka meðvitaða ákvörðun til höfðs villtrar náttúru og þannig þurrka út áratuga atvinnuuppbygginu þeirra sem treysta á hlunnindi sem skapast vegna þeirra villtu laxa- og silungsstofna sem ganga í ár landsins.

Undirrituð félög skora einnig á Matvælaráðherra að festa í lög ákvæði um hvar bannað er að stunda sjókvíaeldi, og jafnframt stækka það svæði svo að Eyjafjörður og Öxarfjörður verði friðunarsvæði. Umrædd fiskeldisáform sýna einmitt þá hættu sem fólgin er í því að hafa bannsvæðin í formi auglýsingar.

Nú þegar er búið að staðfesta erfðablöndun villtra laxastofna í nálægð við sjókvíar. Því ætti frekar að minnka það svæði sem heimilt er að stunda sjókvíaeldi á, frekar en að stækka það.

Náttúra landsins og villtir laxfiskastofnar sem hafa aðlagast náttúru sinni síðan á síðustu ísöld eiga betra skilið. Ef að línan er færð fyrir þessi áform, af hverju ætti hún ekki að vera færð fyrir næstu áform sem koma upp?

Að leyfa sjókvíaeldi á Raufarhöfn væri fordæmisgefandi og væri þá enn eitt skrefið stigið að útrýmingu villtra laxa á Íslandi,“ segir í yfirlýsingunni.

 

Nýjast