FVSA - Starfsdagur trúnaðarmanna

Aðalsteinn Leifsson fjallaði um hlutverk og verkefni embættis ríkissáttasemjara.   Mynd  FVSA
Aðalsteinn Leifsson fjallaði um hlutverk og verkefni embættis ríkissáttasemjara. Mynd FVSA

Starfsdagur trúnaðarmanna var haldinn á dögunum eftir þriggja ára hlé. Starfsdagurinn er partur af endurmenntun trúnaðarmanna þar sem lögð er áhersla á fræðslu í bland við sjálfseflingu einstaklingsins. Öðrum sem gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið er einnig boðið á starfsdaginn.

Dagskráin hófst með fyrirlestri Sigríðar Indriðadóttur, fræmkvæmdastjóra SAGA Competence. Sigríður er með meistaragráðu í mannauðsfræðum og áralanga reynslu af stjórnunar- og mannauðsmálum, hún hefur jafnframt leitt og tekið þátt í umfangsmiklum og flóknum stjórnunarverkefnum sem felast í umbyltingu á rekstri og fyrirtækjamenningu. Í erindinu Meðvirkni á vinnustað, hvernig stígum inn í aðstæður - endurgjöf og heilbrigð mörk, lagði Sigríður áherslu á mikilvægi jákvæðrar og hvetjandi vinnustaðamenningar, fjallaði um einkenni meðvirkni, hvernig við berum ábyrgð á eigin hegðun og höfum áhrif á líðan og hamingju á vinnustaðnum. Erindið vakti gesti til umhugsunar og kveikti umræður í hléum yfir daginn.

Næstur á dagskrá var Aðalsteinn Leifsson sem fjallaði um hlutverk og verkefni embættis ríkissáttasemjara. Í máli hans kom fram með hvaða hætti embættið kemur að kjarasamningum og hvaða heimildir hann hefur til að stýra og miðla viðræðum. Þá sýndi Aðalsteinn gestum vefinn www.kjarasamningar.is sem er opinn gagnagrunnur yfir alla kjarasamninga. Tilgangurinn með gagnagrunninum er að veita launafólki og launagreiðendum skilvirkan aðgang að gildandi kjarasamningum og jafnframt að veita ýmiskonar tölulegar upplýsingar um kjarasamninga og kjarasamningagerðina. Með afbragðs mælsku tókst Aðalsteini að gera efnið áhugavert og innsýn inn í miðlun kjarasamninga aðgengilega.

Deginum lauk á vinnustofu með þeim Guðrúnu Arngrímsdóttur og Hrafnhildi Reykjalín frá Sjálfsrækt sem bar heitið Hvernig nýtum við styrkleika okkar til þess að auka lífsgæði og vellíðan í leik og starfi. Vinnustofan var sambland af fyrirlestri, æfingum og samvinnu með áherslu á muninn á vaxtarhugarfari og fastmótuðu hugarfari og hvernig einstaklingar sem þekkja og nota eigin styrkleika meðvitað hafa meira sjálfs­álit, meiri orku, upplifa aukna vellíðan, aukna ham­ingju og ná frek­ar ár­angri í lífi og starfi. Unnið var með svokölluð styrkleikakort svo hver og einn gæti vegið og metið eigin styrkleika.

Á milli dagskrárliða var farið yfir starf félagsins og það sem framundan er, auk þess sem trúnaðarmenn kusu sína fulltrúa í trúnaðarráð.

Alls mættu 26 á starfsdaginn og kunnum við okkar fólki bestu þakkir fyrir komuna. Góð tengsl við þau sem gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið er okkur mikilvægt, en samstarfið skilar sér í betra upplýsingaflæði til félagsmanna og er það ekki síst þeim að þakka sem gegna þessu hlutverki. 

Frá þessu er sagt á  heimasíðu Félags verslunar og skrifstofufólks  Akureyri, www.fvsa.is

Nýjast