Furðaði sig á háum færslugjöldum bílastæða smáforrita

Mynd/MÞÞ
Mynd/MÞÞ

Karl Eskil Pálsson, upplýsingafulltrúi Samherja og fjölmiðlamaður til margra ára vakti athygli í morgun á kostnaði sem hann þurfti að greiða fyrir að leggja bíl sínum í nokkrar mínútur í miðbæ Akureyrar. En nýverið var tekin upp  gjaldskylda í bílastæðum Akureyrarbæjar.

Á Facebook greindi hann frá því að bílastæðareikningurinn sem hann greiddi í gegnum bílastæða appið EasyPark hafi hljóðað upp á 125 krónur, þar af hafi aðeins 30 krónur runnið í bílastæðasjóð bæjarins.

Enn fremur greinir Karl Eskil frá því að bíllinn hafi verið í stæðinu í 9 mínútur og reikningurinn hafi sundurliðast svona:

EasyPark appið: 77 krónur

Bílastæðagjald: 30 krónur

Virðisaukaskattur: 18 krónur

Líflegar umræður sköpuðust undir þræðinum þar sem margir virðast furða sig á því hvað Akureyrarbær ber lítið úr býtum.

Samkvæmt verðskrá EasyPark rukkar fyrirtækið 95 krónur fyrir hvert skipti sem appið er notað til að leggja bíl. Þá er einnig hægt að greiða fast mánaðargjald sem er 525 kr. til að sleppa við færslugjöldin.

Til samanburðar kostar rukkar Parka appið 86 krónur fyrir hverja færslu eða 490 kr. í fast mánaðargjald.

Nýjast