20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Fundu myglu stjórnsýsluhúsinu á Húsavík
Í síðustu viku var tekið fyrir minnisblað frá Verkís verkfræðistofu í Skipulags- og framkvæmdaráði og Byggðarráði Norðurþings.
Minnisblaðið fjallaði um ástand innanhúss í húsnæði stjórnsýslunnar að Ketilsbraut á Húsavík en niðurstaða skoðunar leiddi í ljós að mygla er komin upp á þremur stöðum hússins. Var sveitarstjóra falið að finna lausn á framtíðar húsnæðismálum stjórnsýslunnar á Húsavík með það að markmiði að hagræða í húsakosti sveitarfélagsins.
Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings segir í samtali við Vikublaðið að það hafi verið vitað að ástandið í kjallara hússins hafi ekki verið gott. „Það var tekið sýni úr kjallaranum, það var vitað svo sem að það væri ekki gott ástand á honum enda er hann ekki notaður undir mannvistarverur. Það þarf að taka hann í gegn alveg og drena í kring,“ segir Katrín og bætir við að mygla hafi fundist á fleiri stöðum í húsinu.
„Svo fór fram skoðun á skrifstofu á fyrstu hæð og fundarherbergi á annarri hæð og þá kom í ljós hönnunargalli á gluggum og það þarf að fara í að laga það.“
Aðspurð hvort að ástand hússins hafi haft áhrif á heilsu starfsfólks segir Katrín að einn starfsmaður hafi unnið að heiman undanfarið. „Við höfum einn starfsmann sem er ekki í húsi en það hefur ekki haft áhrif á aðra.“
Nýr opnunartími
Í vikunni var tilkynnt um nýjan og skemmri opnunartíma stjórnsýsluhússins á Húsavík en móttaka í húsinu verður opin virka daga milli kl. 10:00 - 14:00 nema á föstudögum, þá er opið milli 10:00 - 13:00.
Aðspurð segir Katrín að þessi nýji opnunartími tengist ástandi hússins að hluta til.
„Já það tengist þessu að hluta til, það er sem sagt starfsmaður í þjónustuveri sem er heima en svo er líka mikil fækkun á fólki sem er að koma inn í húsið og það er verið að setja varalegan opnunartíma til að mæta þeirri þróun. Fólk hér innan húss hefur þá lengri tíma til að sinna öðrum verkefnum,“ útskýrir Katrín.
Verið að meta framtíðarmöguleika
Aðspurð hvort komi til greina að stjórnsýslan flytji alfarið úr húsinu segir Katrín að framtíðarmöguleikar séu til skoðunar en engar ákvarðanir verið teknar, málið hafi verið kynnt inn í ráðum í síðustu viku og þar hafi henni verið falið að skoða næstu skref. „Mér var falið að skoða nánar með framtíðarmöguleika. Það eru svo sem margir möguleikar hvað það varðar og það er það sem við erum að leggja upp með fyrir næsta